Viðskipti innlent

Kaupþing var þriðja stærsta gjaldþrot heimsins

Þegar Kaupþing rúllaði yfir s.l. haust var þar um að ræða þriðja stærsta gjaldþrot heimsins frá árinu 1920. Jón Gunnar Jónsson bankamaður kom inn á þetta í Silfri Egils á sunnudag. Raunar fylgdi það sögunni að gjaldþrot Glitnis var hið fimmta stærsta í sögunni.

Jón Gunnar hefur upplýsingar sínar úr sérstakri skýrslu matsfyrirtækisins Moody´s um gjaldþrot í heiminum á síðasta ári en skýrslan kom út fyrr í vetur.

Samkvæmt Moody´s er röð fimm stærstu gjaldþrota heimsins á tímabilinu 1920 til 2008 þannig að í fyrsta sæti er Lehman Brothers og síðan kemur World.com. GMAC er í þriðja sæti og Kaupþing því fjórða.

Jón Gunnar segir að GMAC hafi ekki verið eiginlegt gjaldþrot, heldur frekar fjárhagsleg endurskipulagning. GMAC var fjármálaarmur bandaríska bílarisans General Motors sem raunar er við það að fara í gjaldþrot nú.

Stærð gjaldþrots Kaupþings er metin á rúmlega 20 milljarða dollara hjá Moody´s eða um 2.600 milljarða kr. Gjaldþrot Glitnis er metið litlu minna eða upp á 18,7 milljarða dollara.

Þessar stærðir blikna þó og blána miðað við Lehman Brothers en það gjaldþrot er metið á rúmlega 120 milljarða dollara.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×