Innlent

Geir og Ingibjörg kannast ekki við aðvörun Davíðs

Hvorki forsætisráðherra né utanríkisráðherra kannast við að Davíð Oddsson seðlabankastjóri hafi í sumar varað við yfirvofandi hruni bankanna. Forsætisráðherra útilokar þó ekki að Davíð hafi minnst á þetta í óformlegu samtali þeirra á milli en segist þó ekki muna eftir því.

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, fullyrti á fundi viðskiptanefndar Alþingis í gær að hann hafi varað við yfirvofandi hruni bankanna á fundi með ráðherrum ríkistjórnarinnar í síðastliðnum júnímánuði. Á hann að hafa sagt að það væru núll prósent líkur á því að bankarnir myndu lifa fjármálakreppuna af.

Í yfirlýsingu sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sendi frá sér í gær er þessum fullyrðingum vísað á bug. Þar kemur fram að hún hafi síðast fundað með Davíð í júlí og þar hafi hann ekki látið þessi orð falla.

Orð ingibjargar og Davíðs varðandi fundinn stangast á. Aðspurður hver hafi rétt fyrir sér og hvað hafi farið fram á fundinum sagði Geir: ,,Það var fundur í júlí. Ég kannast ekki við það að það hafi verið talað um 0 prósent líkur. Það má vera að það hafi verið sagt einhverntíman í símtali en slík óformleg samtöl eru ekki hin opinber afstaða bankans."

Forsætisráðherra var þá spurður hvernig hægt væri gleyma slíkri aðvörun. ,,Við höfum talað saman ótal sinnum um þessi mál. Ég hef ekki skrifað allt hjá mér í slíkum símtölum sem fram hefur farið en ef það eru einhver vandamál í þessu þá mun það koma allt saman í ljós þegar málið verður skoðað."

Blaðamenn óskuðu þá eftir því að fá afrit af símtalinu. ,,Þetta símtal hefur ekki verið tekið upp," sagði Geir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×