Lífið

Rokkarar eru góðhjartaðir

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Sveppi og Smutty Smiff heimsóttu Frosta og bekkjarfélaga hans í Laugarnesskóla í gær og áttu þar góða stund.
Sveppi og Smutty Smiff heimsóttu Frosta og bekkjarfélaga hans í Laugarnesskóla í gær og áttu þar góða stund. vísir/gva
„Ég lofa rosalegum flottum tónleikum og hvet fólk til þess að mæta og styrkja gott málefni,“ segir skemmtikrafturinn Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem Sveppi, en hann verður kynnir á tónleikum til styrktar Frosta Jay Freeman sem fram fara síðar í sumar. Sveppi hitti Frosta og bekkjarfélaga hans í gær ásamt Smutty Smiff, sem vinnur nú hörðum höndum við að skipuleggja tónleikana. „Það var ljómandi gaman að hitta Frosta og alla krakkana, það var rosalega ánægjulegt að sjá hvað bekkurinn var samheldinn,“ bætir Sveppi við.

Frosti er aðeins sjö ára gamall en greindist með afar sjaldgæfan erfðasjúkdóm sem kallast Ataxia telangiectasia en Frosti er þriðji Íslendingurinn sem greinist með sjúkdóminn, sem leggst meðal annars á taugakerfi og ónæmiskerfi líkamans. Frosti notast að hluta til við hjólastól.

„Það getur verið rosalegur dagamunur á heilsu hans en hann er lífsglaður strákur,“ segir Petra Bragadóttir, móðir Frosta. Hún er orðlaus yfir því hvað fólk er góðhjartað. „Það er frábært að sjá hvað Smutty er að gera góða hluti og er ég honum mjög þakklát,“ bætir Petra við.

Smutty segist þó ekki vera kominn með nákvæma dagsetningu á tónleikana en að þeir verði í sumar. „Við erum í viðræðum við marga af þekktustu tónlistarmönnum þjóðarinnar og ætlum að búa til flotta tónleika,“ bætir Smutty við. Hann hvetur þá sem vilja leggja hönd á plóginn til að hafa samband í gegnum smuttysmiff@yahoo.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×