Innlent

Deila fötum og bókum í þúsunda tali

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Þriðji skiptimarkaðurinn á þessu ári var haldinn á Loft Hostel í dag og var mikill handagangur í öskjunni á þegar fólk skiptist á fötum og bókum. Helena W Óladóttir gæða- og umhverfisstjóri Farfugla sem reka Loft Hostel segir markaðinn lið í umhverfisstefnu samtakanna.

„Þetta er hluti af deilihagkerfinu. Við erum að deila með okkur verðmætum sem við höfum ekki not fyrir. Við erum að leggja til umhverfismála og hvetjum fólk til að nýta fötin sín betur. Okkar hugsjón er að hlúa að umhverfismálum og þetta ere inn liður í því.“

Hún segir markaðinn afar vinsælan. „Markaðurinn hefur verið í gangi í fjögur ár og er haldinn að meðaltali einu sinni í mánuði. Það koma um 100 til 150 manns í hvert skipti þannig að það hafa þúsundir komið og gefið og fengið föt og bækur í staðinn.“

Það var greinilegt að fólk kunni vel að meta markaðinn og meðan sumir voru að koma í fyrsta skipti höfðu aðrir komið reglulega bæði til að losa um í fataskápnum og svo til að klæða sig upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×