Fastir pennar

Hlutverk forsetans

Nú í aðdraganda alþingiskosninga hafa sést og heyrst bollaleggingar um hugsanleg áhrif forseta Íslands, ef til myndunar nýrrar ríkisstjórnar kemur að þeim loknum. Sú umræða hefur vakið upp það álitaefni hvort hætta geti verið á að forsetinn beiti sér fyrir niðurstöðu öndvert við lýðræðislegan vilja kjósenda.

Á það er að líta í þessu sambandi að vald forseta Íslands eins og annarra handhafa ríkisvalds er háð þeim takmörkunum sem stjórnarskráin mælir fyrir um. Stjórnarskráin geymir engin bein fyrirmæli um myndun ríkisstjórnar. Þar um hafa hins vegar mótast nokkrar hefðir á grundvelli þingræðisreglunnar. Hún er stjórnlagaregla sem ekki verður vikið frá.

Engum vafa er því undirorpið að allt vald varðandi myndun og setu ríkisstjórnar er í höndum Alþingis. Enga ríkisstjórn er unnt að mynda og engin ríkisstjórn getur setið án stuðnings eða hlutleysis meirihluta Alþingis. Forsetinn er hluti af framkvæmdavaldinu og verður að lúta vilja Alþingis í þessu efni.

Þá vaknar sú spurning hvort forsetinn geti falið einhverjum myndun ríkisstjórnar gegn vilja meirihluta þingsins. Stjórnarskráin segir ekkert um svokallað umboð til stjórnarmyndunar. Um það eru engar lagareglur. Í reynd er það svo formlaus athöfn að hún hefur ekki verið skjalfest með öðrum hætti en fréttatilkynningu.

Kjarni málsins er sá að í þeim efnum getur forseti ekki gengið framhjá ábendingum flokksformanna sem hafa meirihluta þings á bak við sig. Alþingi myndi einfaldlega fella slíka stjórn um leið og það kæmi saman. Hér eru engin álitaefni sem ástæða er til að óttast.

Sú staða getur komið upp að forystumenn stjórnmálaflokkanna geti ekki gefið forseta vísbendingu um möguleika á myndun stjórnar með stuðningi eða hlutleysi meirihluta Alþingis. Í því falli hefur forseti nokkuð frjálsar hendur að biðja hvern sem er innan þings eða utan um að gera tilraun til stjórnarmyndunar eða láta kyrrt liggja.

Gerist það hins vegar meðan á slíkri tilraun stendur að meirihluti Alþingis vilji beina henni í annan farveg verður forseti á grundvelli þingræðisreglunnar að taka tillit til þess. Komi engir flokkar sér saman um myndun starfhæfrar ríkisstjórnar er við þingið sjálft að sakast en ekki forsetann. Best fer á því að forseti feli engum að gera tilraun til stjórnarmyndunar nema hann hafi fyrir fram ríka ástæðu til að ætla að hún takist.

Loks kemur til skoðunar hvort forseti geti beitt áhrifum sínum, vegna tengsla við forystumenn í stjórnmálum, í þeim tilgangi að skapa samstöðu um að ríkisstjórn verði mynduð á einn veg fremur en annan. Ekkert kemur í veg fyrir það. Slík tengsl geta reyndar virkað á báða bóga. Ef forsetinn er á annað borð opinn fyrir því geta stjórnmálaforingjarnir líka notað hann í þessu skyni.

Beiting áhrifa felur hins vegar ekki í sér neitt beint stjórnskipulegt vald. Í hverjum flokki má finna áhrifamenn sem geta beitt sér með svipuðum hætti og í sama tilgangi gagnvart einstökum flokksformönnum. Vilji forsetinn blanda sér í þann hóp er það í sjálfu sér ekkert ólýðræðislegra af hálfu hans en annarra. Það getur hins vegar haft víðtækari áhrif á álit hans og stöðu.

Hver sem hugur forsetans er getur hann aldrei tekið sér vald eða gengið í aðra átt en meirihluti Alþingis er fús að sætta sig við. Þar er ekkert stjórnskipulegt tómarúm.






×