Lífið

Handbók fyrir foreldra um kynlíf

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Sigga Dögg gefur út sína fyrstu bók sem er handbók fyrir foreldra og fullorðna.
Sigga Dögg gefur út sína fyrstu bók sem er handbók fyrir foreldra og fullorðna. Mynd/Hemmi
„Í staðinn fyrir að vera kaffiborðsbók verður þessi bók svokölluð náttborðsbók fyrir fullorðna,“ segir Sigríður Dögg Arnardóttir kynfræðingur sem skilaði inn handriti að sinni fyrstu bók í gær.

Bókin nefnist Kjaftað um kynlíf og verður handbók fyrir foreldra þar sem farið er yfir hvernig á að tala um kynlíf við börn og unglinga á aldrinum 0-18 ára. Bókin á að koma út í haust á vegum útgáfunnar Iðnú.

„Bókin er byggð á efni sem ég hef sankað að mér á seinustu fjórum árum, mín reynsla í bland við erlendar og innlendar rannsóknir,“ segir Sigríður Dögg, betur þekkt sem Sigga Dögg, en hún segir bókina vera skyldueign fyrir foreldra og fullorðna.

„Lykillinn að kynfræðslu er að foreldrar geti talað um kynlíf við börnin sín. Oftar en ekki veit fólk ekki hvernig á að gera það og hvenær er best að byrja fræðsluna. Ég skoðaði margar nýjar bækur um þetta málefni, flestar frá Bandaríkjunum og eru þær margar miðaðar að því að banna kynlíf fyrir hjónaband sem á alls ekki við hér.“

Efni bókarinnar verður skipt í aldursskeið en Sigga Dögg segir mikilvægt að leyfa forvitni barnsins að ráða þegar kemur að kynfræðslu.

„Ég mundi segja að 4-6 ára aldurinn væri góður til að byrja að koma inn á hvernig börnin verða til, svo ræður maður hversu djúpt er farið í útskýringarnar. Allt er þetta tekið fyrir í bókinni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.