Bíó og sjónvarp

Rekur sögu dularfulls rúmensks söngvara

Sara McMahon skrifar
Aðdáandi Sara Gunnarsdóttir, teiknimyndateiknari, gerði heimildarmynd um tónlistarmanninn Daniel C. Ári eftir gerð hennar hitti hún söguhetjuna í eigin persónu.
Aðdáandi Sara Gunnarsdóttir, teiknimyndateiknari, gerði heimildarmynd um tónlistarmanninn Daniel C. Ári eftir gerð hennar hitti hún söguhetjuna í eigin persónu. Mynd/sara Gunnarsdóttir
„Ég heyrði tónlistina fyrst hjá vini mínum, Helga Þór. Hann kom með diskinn frá Kanada og var mjög heillaður af tónlistinni og sögunni á bak við diskinn. Sagan um Daniel C. er dularfull og mér fannst hún gott efni í heimildarmynd,“ útskýrir Sara Gunnarsdóttir. Hún leikstýrði heimildarmyndinni Pirate of Love sem fjallar um tónlist dularfulls vörubílstjóra frá Rúmeníu að nafni Daniel C.

Sjóræningi ástarinnar

Pirate of Love var mastersverkefni Söru úr Cal Arts og var tvö ár í vinnslu. Sara útskrifaðist frá skólanum í fyrra vor með MA gráðu í experimental animation, sem þýða mætti sem tilraunateiknigmyndagerð á íslensku. Myndin byggist upp á viðtölum við aðdáendur Daniels C. á Íslandi og teikningum eftir Söru.

„Myndin var búin að flakka á milli kvikmyndahátíða í heilt ár þegar ég fæ vefpóst frá manni sem heitir Luke og býr í Mississippi. Hann sagðist hafa séð myndina og þekkti Daniel C. og kom mér svo í samband við hann. Í fyrstu var ég svolítið smeik, því ég vissi ekki hvað var satt og hvað ekki í sögunni minni um Daniel C. Ég skrifaðist þó á við Daniel og konu hans í smá tíma og endaði svo á því að heimsækja þau,“ segir Sara. Í ljós kom að sagan sem Helgi Þór Harðarson hafði með sér frá Kanada var nokkuð nálægt sannleikanum, nema með eilítið jákvæðari sögulokum.

Giftur og búsettur í Mississippi

„Hann er fæddur í Rúmeníu á kommúnistaárunum og flúði þaðan tvítugur að aldri. Hann fékk svo hæli í Kanada og var þar í sjö ár. Hann er mjög trúaður og skráði sig á stefnumótasíðu fyrir aðventista, þar kynntist hann bandarískri konu að nafni Sherry - þeirri sömu og lögin á geisladisknum fjalla um. Í dag eru þau gift og eiga saman tvö börn, strák og stelpu.“ Sara tók viðtal við Daniel C. á meðan á heimsókn hennar stóð og hyggst nýta það í framhaldsmynd þar sem saga söngvarans er rakin enn frekar. „Mér finnst ég þurfa að gera aðra mynd, efnið er eiginlega of gott til að sleppa því.“

Sara er búsett í Brooklyn í New York þar sem hún vinnur sem sjálfstætt starfandi teiknimyndateiknari. Hún vinnur nú að gerð kvikmyndar sem byggð er á skáldsögunni The Diary of a Teenage Girl eftir Phoepe Gloeckner.

Pirate of Love samanstendur af viðtölum og teikningum Söru.
Frá Kanada til Íslads

Forsaga myndarinnar er sú að geisladiskur Daniel C. fannst í annars tómum skáp í búningsklefa í Kanada. Diskurinn var merktur Daniel C. og eru flest lögin á honum ástarjátningar til konu að nafni Sherry.

Fátt var vitað um tónskáldið sjálft en tónlist hans fann sér hljómgrunn meðal hóps ungs fólks. Helgi Þór Harðarson flutti afrit af disknum með sér heim til Íslands og innan skamms hafði Daniel C. eignast svolítinn hóp af aðdáendum hér á landi.

Hægt er að horfa á myndina hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.