Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem Sveppi, hefur síðustu tuttugu ár verið einn vinsælasti sjónvarpsmaður landsins. Hann er gestur vikunnar í Einkalífinu. Sveppi sló fyrst í gegn í þáttunum 70 mínútur á Popp TV og síðan þá hefur hann leikið í grínþáttum, kvikmyndum, á sviði og gert ótal þáttaraðir í íslensku sjónvarpi.
Þegar Sverrir var sjö ára missti hann bróður sinn, sem þá var níu ára. Eldri bróðir Sveppa drukknaði í Elliðaánum.
„Hann drukknaði á sólríkum sumardegi og er það mesta áfall sem ég hef lent í,“ segir Sveppi sem man mjög vel eftir þessum tíma.
„Þetta var ákveðin skellur og var mjög erfitt og situr í manni. Þetta var mjög erfitt fyrir alla fjölskylduna og það fer í rauninni allt í rúst. Þetta var mikið áfall fyrir mömmu og pabba. Ég á eldri bróðir sem var í sveit á þessum tíma og þetta var mjög mikið áfall fyrir hann. Mamma og pabbi voru þarna nýbúin að missa dreng og eru að upplifa mjög mikla sorg á þeim tíma en þurfa samt að sinna mér og hinum,“ segir Sveppi sem viðurkennir að kannski hafi hann örlítið ofverndað eigin börn í kjölfarið.
Í þættinum hér að ofan ræðir Sveppi einnig um ferlinn sinn í fjölmiðlum, um fjölskyldulífið, um frægðina, vináttu hans við Eið Smára, kosti hans og galli, komandi verkefni og margt fleira.