Körfubolti

Hörður Axel: Nýtt undirbúningstímabil hefst í dag

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson leikmaður Keflavíkur ætlar á æfingu í dag og hefja undirbúning fyrir næsta tímabil en hann leyndi ekki vonbrigðum sínum eftir 105-89 tap liðsins gegn KR í gær. Hörður Axel var í liði Keflavíkur í fyrra sem tapaði í úrslitum gegn Snæfelli um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla og hann segir að mótlætið muni efla Keflavíkurliðið fyrir næsta tímabil.

„Ég þarf að bæta minn leik fyrst við komumst ekki í úrslit og það er ekkert annað að gera en að mæta í íþróttasalinn og byrja á nýju tímabili," sagði Hörður.

„Svæðisvörnin okkar var ekki að virka eins vel og í síðustu tveimur leikjum – það var kannski skiljanlegt því þeir voru búnir að fá tíma til að finna lausnir," sagði Hörður en hann er sannfærður um að Keflvíkingar geti gengið með höfuðið hátt eftir undanúrslitaleikina gegn KR. „Þessi rimma var frábær auglýsing fyrir íþróttina. Í þessum leikjum voru 6-7 af bestu leikmönnum deildarinnar að spila á móti hvorum öðrum."

Leikstjórnandinn er sannfærður um að KR fari alla leið og landi Íslandsmeistaratitlinum. „Stuðullinn á Lengjunni er svona 1 á móti 50. Ég held að KR sé komið með þetta en það getur allt gerst. Stjarnan tók Snæfell 3-0 og KR-ingar þurfa að hafa fyrir þessu," sagði Hörður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×