Viðskipti innlent

Eyrir tapaði engu á bönkunum, NBI orðinn hluthafi

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest. Mynd/GVA

Eyrir Invest varð ekki fyrir skakkaföllum af völdum bankahrunsins í byrjun október. Félagið hefur náð samkomulagi um að taka yfir hlut Nýja Landsbankans (NBI) í London Acquisition í hollensku iðnsamsteypunni Stork. Félagið er í eigu Landsbankans, Eyris og breska fjárfestingafélagsins Candover.

Eyrir, Landsbankinn (sá gamli) og Candover luku yfirtöku á iðnsamsteypunni í janúar á þessu ári í gegnum sameiginlega eignarhaldsfélagið London Acquisition. Heildarvirði kaupanna nam 1,7 milljörðum evra. Samhliða yfirtökunni var gert samkomulag um yfirtöku Marel Food System á Stork Food Systems fyrir 430 milljónir evra.

Með kaupum Eyris á hlut bankans situr Eyrir á ríflega sautján prósentum í Stork.

Eyrir greiðir Landsbankanum fyrir hlutinn með nýju hlutafé og eignast Nýi Landsbankinn því 27,5 prósent í Eyrir. Þeir munu stefna að því að selja af eign sinni og halda í kringum 20 prósent síðar meir.

Eyrir Invest hagnaðist um 942 milljónir króna á fyrstu tíu mánuðum ársins. Þetta er í kringum 200 milljónum krónum betri afkoma en á sama tíma í fyrra. Þetta leiðir af methagnaði hjá Marel Food Systems og Össuri, sem Eyrir er kjölfestufjárfestir í.

Þá segir í uppgjöri félagsins fyrir síðustu tíu manuði að félagið hafi ekki orðið fyrir skakkaföllum af völdum bankahrunsins í október. Eigið fé sé 30,2 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 40,3 prósent.

Laust fé og aðrar bankainnistæður nema 8.624 milljónum króna.

Félagið hefur fengið heimild Ársreikningaskrár til að gera upp í evrum frá og með upphafi næsta reikningsári.

Tilkynning Eyris


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×