Lífið

Bubbi og Björgvin svolítið eins og gömul hjón

Þórður Ingi Jónsson skrifar
„Að þeir séu báðir ennþá starfandi tónlistarmenn segir nú ansi margt um þeirra karakter. Stórar stjörnur geta komið og skinið skært í eitt til tvö ár og svo bara horfið. Þetta eru hins vegar svo mörg ár og svo langur ferill,“ segir Gaukur Úlfarsson, leikstjóri heimildarmyndarinnar Bubbi og Bó sem frumsýnd verður á Stöð 2 á sunnudag.

„Að öðrum ólöstuðum þá eru þeir tveir stærstu kóngarnir sem íslenskt popp hefur alið af sér. Björgvin stelur krúnunni af Rúna Júl á sínum tíma og situr einn við háborðið með alla athyglina í 10 ár nánast, þar til að Bubbi kemur með braki og brestum og hrekur hann af sviðinu og tekur næstu 10 árin.“

Gaukur segir það hafa verið gaman að fylgjast með þeim köppum. „Það er ólíkt hvernig þeir tala hvor um annan þegar hinn er á svæðinu og svo þegar hinn er ekki á svæðinu. Þeir bera mikla virðingu hvor fyrir öðrum en þeir eru svolítið eins og gömul hjón, þeir eru stanslaust að kýta og pikka hvor í annan,“ segir hann.

„En það er allt í góðu, allavega í dag. Þetta er náttúrulega alveg ótrúlegur ferill sem þeir eiga báðir. Að hafa bæði úthaldið og metnaðinn og bara listræna kraftinn í að halda út svona stórum og löngum ferli er alveg einstakt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.