Veiði

Varmá: 8 glæsifiskar á 5 klukkutímum

Svavar Hávarðsson skrifar
Hér eru aðeins birtar þrjár myndir af fjölmörgum í fórum Hrafns. Þær voru valdar eftir þeirri einföldu reglu að birtingarnir eru allir yfir 70 sentímetra; veiddir 9. og 16. apríl. Sá stærsti 75 sentímetrar.
Hér eru aðeins birtar þrjár myndir af fjölmörgum í fórum Hrafns. Þær voru valdar eftir þeirri einföldu reglu að birtingarnir eru allir yfir 70 sentímetra; veiddir 9. og 16. apríl. Sá stærsti 75 sentímetrar. Myndir/HHH
Í fréttum af vorveiðinni undanfarnar tvær vikur eða svo hefur Varmáin vakið verðskuldaða athygli. Ef fréttir eru rýndar þá virðist ekki bratt að áætla að veiðin í vor sé fimmfalt meiri en var á sama tíma í fyrra.

Af þeim sem stunda þetta dyntótta veiðivatn eru þeir félagar í Veiðifélaginu Kvisturinn einna duglegastir. Einn þeirra félaga, Hrafn H. Hauksson, á það til að skreppa eftir skóla og með eftirtektarverðum árangri þó ekki sé tekið dýpra í árinni.

Spurður um leyndarmálið að baki þessari velgengni segir Hrafn málið ekki mjög flókið: „Við veiðum mikið upstream með púpunum hans Sveins Þórs á Akureyri og heimatilbúnar flugur. Aðal málið er að fara varlega, nota nokkuð langa tauma og vanda köstin, sérstaklega í litlu vatni.“

Nákvæmlega! Þegar talað er um eftirtektarverðan árangur má vitna til bréfs sem Hrafn sendi að gamni sínu til SVFR á dögunum. „Ekki var þetta fýluferð get ég sagt! Ég setti í ellefu fiska og landaði átta. Minnsti var 45 sentímetrar en restin 55-72 sentímetrar. Semsagt glæsilegir 5 tímar! Svo var annar 72 sentímetra birtingurinn sá feitasti sem ég hef séð! Einn flottasti fiskur sem ég hef veitt. Ég skaut á 10 pund eða svo, svo feitur var hann!“

Veiðifélagið Kvistur heldur úti afburða skemmtilegri heimasíðu sem vert er að hvetja veiðimenn til að kíkja á. Þar má læra mikið, ekki síst um veiðar í Varmá þó farið sé um víðan völl. Tökum dæmi: „Meiri vitleysan Varmáin í vor! Ég (Hrafn) fór eftir skóla, fékk far austur og var byrjaður að veiða milli hálf fimm og fimm. Ég kastaði árangurslaust á Strengi, Beyjuna og Stöðvarhylinn með straumflugum því mér þykir það einfaldlega leiðinlegt að veiða þá með púpum. Það leyndi sér ekki að það var fiskur í Stöðvarbreiðunni því strax í öðru kasti set ég í flottan fisk, á að giska 60 sentímetra langan en missi hann eftir nokkur flott stökk. Hann tók Peter Ross púpu nr. 12. Jæja, byrjar vel. Strax í næsta kasti set ég aftur í fisk en hann var á í mjög stutta stund. Hvað var í gangi? Tvö köst-tveir fiskar og ég búinn að missa þá báða! Fljótlega eftir þetta (örfáum köstum) set ég aftur í fínan fisk og landa honum, 55 sentímetra birtingi. Glæsileg byrjun,“ skrifar Hrafn.

Hér eru lýsingar frá 16. apríl en þann 9. apríl var ekki síður gaman hjá mönnum. „Það tók ekki nema fjögur köst til að setja í fyrsta fiskinn. Þetta var 50 sentímetra sjóbirtingur, ekki sá feitasti miðað við birtingana í Varmá en ágætur fyrir utan það. Hann tók Pheasant Tail nr. 14, kastað upstream með tökuvara. Ég veiði oftast með 2-3 flugum, þarna var ég með Bleik og Blá nr. 12 efst, svo Pheasant Tail nr. 14 og neðst Krókinn nr. 10. Litlar flugur í lítið og tært vatn eins og var þennan dag. Fiskarnir reyndust gríðar hrifnir af Pheasant Tail púpunni því strax í næsta kasti hvarf tökuvarinn… og góður hluti af línunni líka! Eitthvað mistókst kastið þannig að flugurnar flæktust allar en Pheasant Tail púpan slapp við að flækjast of mikið, núna hékk hún svona 60 sentímetra fyrir neðan tökuvarann þannig að þegar fiskurinn tók reif hann hluta af línunni niður með sér.“

Hér er aðeins tæpt á frásögnum Hrafns af veiðum í Varmá. Veiðimenn eru hvattir til að kíkja á heimasíðuna þeirra félaga, því þar er að finna grunnnámskeiðið Varmá 101.

Hér má nálgast veiðileyfi í Varmá.

svavar@frettabladid.is






×