Sport

Berglind og Elísabet Norðurlandameistarar í strandblaki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísabet Einarsdóttir og Berglind Gígja Jónsdóttir fagna sigrinum í dag.
Elísabet Einarsdóttir og Berglind Gígja Jónsdóttir fagna sigrinum í dag. Mynd/Fésbókarsíða landsliðsins í strandblaki
Elísabet Einarsdóttir og Berglind Gígja Jónsdóttir urðu í dag Norðurlandameistarar í strandblaki en þær skipa stúlknalandslið Íslands sem vann 2-1 sigur á Noregi í úrslitaleiknum á Norðurlandamóti 19 ára og yngri. Þetta kemur fram á heimasíðu Blaksambands Íslands.

Íslensku stúlkurnar byrjuðu mjög vel í leiknum og komust fljótlega í 6-0. Norska liðið tók leikhlé og náði svo að jafna leikinn. Eftir það var allt í járnum og þurfti upphækkun til að útkljá sigur í hrinunni. Noregur vann fyrstu hrinuna 22-24. Í annarri hrinunni var leikurinn mjög jafn framan af og jafnt á öllum tölum í 16-16. Frábær lokakafli hjá okkar stúlkum skilaði þeim inn í oddahrinu með sigri 21-16.

Í oddahrinunni virtist sem Noregur væri þreyttara liðið en á móti spilaði Ísland óaðfinnanlega. Stelpurnar komust strax í forystu og unnu hrinuna 15-6 og hömpuðu Norðurlandameistaratitlinum. Þess ber að geta að norska liðið er það sama og komst áfram úr forkeppni Ólympíuleikanna úr riðli Íslands síðastliðinn sunnudag.

Lúðvík Már Matthíasson og Theódór Óskar Þorvaldsson unnu sinn fyrsta leik í strandblaki í dag á mótinu í Drammen í Noregi en þeir unnu 2-1 sigur á Englandi og tryggðu sér með því fimmta sætið á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×