Handbolti

Bræðurnir sömdu hvor við sitt liðið: Andri Már til Fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Már Rúnarsson er kominn í Frambúninginn og ætlar greinilega að spila í treyju númer 26.
Andri Már Rúnarsson er kominn í Frambúninginn og ætlar greinilega að spila í treyju númer 26. Mynd/Fram

Andri Már Rúnarsson hefur fundið sér nýtt félag í Olís deild karla í handbolta en hann er búinn að ganga frá samningi við Fram.

Í morgun sögðum við frá því að eldri bróðir hans, Sigtryggur Daði Rúnarsson, er búinn að semja við bikarmeistara ÍBV.

Andri Rúnar gerir tveggja ára samning við Framliðið en þetta er efnilegur handboltamaður sem hefur verið í íslenska átján ára landsliðinu.

Andri Rúnar er átján ára gamall (fæddur 2002) og sex árum yngri en Sigtryggur Daði sem er að koma heim út atvinnumennsku.

Andri Már hefur aftur á móti spilað með Stjörnunni síðustu tvö tímabil en faðir þeirra er Rúnar Sigtryggsson fráfarandi þjálfari Stjörnunnar. Rúnar sendi þeim kveðju á Twitter í dag.

Andri Már er leikstjórnandi og skoraði 41 mark fyrir Stjörnuna í Olís deildinni í vetur eða yfir tvö mörk að meðaltali í leik.

Framarar hafa verið að styrkja liðið sitt að undanförnu því Elías Bóasson er einnig búinn að skrifa undir tveggja ára samning við Fram. Elías Bóasson hefur verið hjá ÍR en er nú að snúa aftur heim í Fram.

Fram komnir/farnir

Komnir:

  • Andri Már Rúnarsson frá Stjörnunni
  • Elías Bóasson frá ÍR
  • Róbert Örn Karlsson frá Víkingi
  • Þorvaldur Tryggvason frá Fjölni
  • Rógvi Dal Christiansen frá Kyndil (Færeyjum)
  • Vilhelm Poulsen frá H71 Hoyvik (Færeyjum)

Farnir:

  • Andri Heimir Friðriksson til ÍR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×