Lífið

Swift gefur Keshu tugi milljóna

Birgir Olgeirsson skrifar
Tónlistarkonan Kesha.
Tónlistarkonan Kesha. Vísir/Getty
Nokkrum dögum eftir að tónlistarkonan Kesha tapaði máli fyrir dómi hefur tónlistarkonan Taylor Swift komið til aðstoðar og gefið henni 250 þúsund dollara, sem nemur um 32 milljónum íslenskra króna.

Swift er ein af fjölmörgum stjörnum sem hafa komið Keshu til aðstoðar eftir að dómari neitaði kröfu hennar um að samningi hennar við útgáfurisann Sony verði riftur með dómi.

Kesha hefur staðið í málaferlum gegn framleiðanda hennar, Dr. Luke, sem heitir réttu nafni Lukasz Gottwald, frá árinu 2014 eftir að hafa sakað hann um kynferðislegt ofbeldi gegn henni.

Samningur Keshu við Sony bannar henni að búa til tónlist með öðrum framleiðanda en Gootwald. Hins vegar ákvað dómarinn það að hún megi starfa með öðrum framleiðanda á vegum Sony. Lögmaður hennar hafði haldið því fram að Sony væri að reyna að eyðileggja feril hennar og myndi ekki koma tónlist hennar á framfæri.

Á meðal þeirra sem hafa stutt Keshu opinberlega eru Ariana Grande, Kelly Clarkson, Lady Gaga, Darren Hayes og Demi Lovato.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×