Lífið

Gæddi sér á lambaskönkum í galtómum veitingasal IKEA

Jakob Bjarnar skrifar
Aldrei þessu vant var enginn í veitingasal IKEA -- nema Guðbergur Bergsson.
Aldrei þessu vant var enginn í veitingasal IKEA -- nema Guðbergur Bergsson.
Vísi hefur tekist að finna einn Íslending sem ekki var límdur við skjáinn þegar Ófærð var á dagskrá í gærkvöldi. Sá er Guðbergur Bergsson rithöfundur. Hann notaði tækifærið og gæddi sér á grilluðum lambaskönkum í IKEA meðan Ófærð var á skjánum. Þar var varla sálu að finna utan rithöfundarins góða og starfsfólks.

Greint er frá þessu á Facbooksíðunni Guðbergur Bergsson – Guðbergsstofa. Guðbergur er margverðlaunaður rithöfundur, hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Svaninn árið 1991 og fyrir skáldævisöguna Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar árið 1997. Guðbergur hlaut Norræn verðlaun sænsku bókmenntaakademíunnar árið 2004. Guðbergur fékk Riddarakross Afreksorðunnar frá Spánarkonungi. En, hann er jafnframt umdeildur pistlahöfundur á DV og á það til að strjúka þjóðarsálinni öfugt með blátt áfram hugleiðingum sínum.

Guðbergur notaði sem sagt tækifærið, meðan þjóðin sat límd við skjáinn í gærkvöldi, stakk sér inná IKEA, veitingasalinn þar sem oftast er troðinn og fékk sér að borða. Eða eins og segir: „Grillaðir lambaskankar á draumaveitingastaðnum, sem var mannlaus sökum „Ófærðar““.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×