Viðskipti innlent

Miðaldaréttarfar verður aldrei liðið

Skúli Bjarnason
Skúli Bjarnason
Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), áskilur sér rétt til að láta reyna á málatilbúnað stjórnar FME við ætlaða brottvikningu hans úr starfi með stjórnsýslukæru. Þetta kemur fram í bréfi sem Skúli Bjarnason, lögmaður hans sendi stjórnarformanni FME í gær.

„Sú kærumeðferð, ef af verður, fyrirbyggir ekki að látið verði reyna á aðra þætti málsins fyrir dómstólum, samhliða eða í kjölfarið," segir jafnframt í bréfinu. „Miðaldaréttarfar á Íslandi á 21. öld verður aldrei liðið."

Eins er áréttað í bréfinu að Gunnar hafni því að hafa á nokkurn hátt beitt blekkingum vegna aðkomu hans að málefnum Landsbankans árið 2001. „Væri þetta skoðað til fulls fellur að sjálfsögðu hinn meinti blekkingarþáttur út og málatilbúnaðurinn hrynur."

Gunnar og lögmaður hans líta svo á að þriggja sólarhringa svarfrestur sem stjórn FME gaf þann 20. þessa mánaðar byrji ekki að líða fyrr en stjórnin hafi svarað öllum spurningum sem að henni hafi verið beint vegna fyrirhugaðrar uppsagnar Gunnars.

Í bréfinu sem forstjóri FME fékk boðsent frá stjórn FME 17. þessa mánaðar er honum kynnt fyrirætlan stjórnar um að segja honum upp störfum með sex mánaða fyrirvara. „Þá er það jafnframt fyrirætlan stjórnar að lýsa því yfir að ekki verði óskað eftir vinnuframlagi þínu á uppsagnartímanum," segir þar. - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×