Handbolti

Arnór Atlason í landsliðshópinn í ný

Arnór Atlason kemur aftur inn í landsliðið um helgina. Hér er hann ásamt landsliðsþjálfaranum á HM í Þýskalandi
Arnór Atlason kemur aftur inn í landsliðið um helgina. Hér er hann ásamt landsliðsþjálfaranum á HM í Þýskalandi

Á blaðamannafundi sem haldinn var á Hótel Loftleiðum í hádeginu tilkynnti Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari landsliðshópinn sem mætir Serbum í síðari leiknum í umspili um sæti á EM í Noregi þann 17. júní næstkomandi. Ein breyting hefur verið gerð á hópnum frá fyrri leiknum ytra. Arnór Atlason hjá FCK í Kaupmannahöfn kemur inn í hópinn.

Alfreð Gíslason vill láta á það reyna hvort Arnór sé heill heilsu, en hann hefur átt við meiðsli að stríða. Meiðsli komu í veg fyrir að hann gæti verið með í fyrri leiknum í Serbíu, en hann tapaðist með einu marki. Alfreð sagði á blaðamannafundinum í dag að verkefnið væri krefjandi en auðvitað vonaðist hann eftir íslenskum sigri.

Hann sagðist heilt yfir hafa verið ánægður með leik íslenska liðsins í leiknum í Serbíu, en fjölmiðlar þar í landi höfðu sagt fyrir leikinn að Serbar þyrftu 5-10 marka sigur til að vera öruggir með sæti á EM. Alfreð gat þess ennfremur að serbneska liðið gæti leikið betur en það gerði á heimavelli sínum og sömu sögu væri að segja af því íslenska. Hann sagði að stuðningur áhorfenda í Laugardalshöllinni gæti skipt sköpum um helgina - auðvitað vildu menn sigra og vonandi myndi það takast.

Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, gat þess brosmildur á fundinum að aðeins 200 miðar væru eftir á leikinn. Það vakti athygli að þrír landsliðsmenn Íslands voru mættir á fundinn, þeir Guðjón Valur Sigurðsson, Róbert Gunnarsson og Snorri Steinn Guðjónsson - ásamt landsliðsþjálfaranum - og veittu þeir blaðamönnum ótakmarkaðan aðgang að viðtölum. Ólafur Stefánsson var hinsvegar fjarri góðu gamni vegna veikinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×