Handbolti

Kristján: Tekur tíma að púsla þessu saman

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Kristján Arason, þjálfari FH.
Kristján Arason, þjálfari FH. Mynd/Vilhelm
Kristján Arason, þjálfari FH,  var að vonum ánægður eftir sigurinn á Val í Meistarakeppni HSÍ í kvöld. Dramatíkin var allsráðandi en úrslit réðust ekki fyrr en eftir tvær framlengingar og vítakeppni.

„Þetta er fyrsti meistari meistaranna sem FH vinnur. Að vinna hann eftir svona tvíframlengdan leik og vítakeppni er mjög sætt. Þetta var mjög jafn leikur. Við byrjuðum miklu betur en þeir komust inn í leikinn með þolinmæði og góðu línuspili en síðan þegar við áttum tækifæri að klára leikinn þremur fleiri þá varði Ingvar mjög vel frá okkur. Eftir það var þetta eitt og eitt mark. Það lið sem kláraði vítakeppnina myndi vinna,“ sagði Kristján en FH bjó að reynslu úr vítakeppni í undankeppni Meistaradeildarinnar í Ísrael.

„Vítakeppnin í Ísrael hjálpaði til, það er ekki spurning. Það var mikil reynsla. Þá vorum við á útivelli með brjálað höll á móti okkur. Það var mjög skrítið að sjá Sturla klikka í lokin, hann er mjög örugg vítaskyttu en svona getur gerst,“ sagði Kristján sem segir sitt lið eiga nokkuð í land.

„Við erum ekki nógu vel samspilaðir. Við erum með nýja leikmenn í stöðunum fyrir utan og ég held að það taki sinn tíma að púsla þessu saman til að láta ekki eins einfalt atriði og klippa út loka á sig. Þetta tekur tíma. Ég er meira svekktur með vörnina en þeir eru með mjög gott línuspil sem er erfitt að stoppa.“

„Valsmenn eru með sterkt lið og mér sýnist á undirbúningstímabilinu þá verði þetta jafnara en í fyrra. Ég held að það verði sex lið í baráttunni um fyrstu fjögur sætin. Mér sýnist Afturelding og Grótta ekki vinna leiki á undirbúningstímabilinu en það er mitt mat þó þetta eigi eftir að koma ljós,“ sagði Kristján.

„Ég er ánægður með hvað leikmenn héldu lengi út í 80 mínútur plús tafir. Þetta var fín þrekæfing í leiðinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×