Lífið

Allt fauk um allt í Eyjum

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Svona leit hluti tjaldsvæðis Rentatent út áður en vindurinn tók að aukast.
Svona leit hluti tjaldsvæðis Rentatent út áður en vindurinn tók að aukast. mynd/einkasafn
„Það voru leigð hjá okkur 160 tjöld samanlagt af 3 týpum sem gera um 700 einstaklinga í gistingu hjá okkur. Það var því gífurleg ábyrgð á okkar herðum og óþægilegt að vera svona máttvana gagnvart veðurguðunum og geta lítið annað gert en að takmarka óþægindi hvers og eins gests,“ segir Ernir Skorri Pétursson, annar af eigendum Rentatent.is en mikið var að gera hjá liðsmönnum fyrirtækisins á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um helgina.

Mikill vindur sett svip sinn á hátíðina aðfaranótt mánudags og mældist hann 28 metrar á sekúndu í verstu hviðum og blés fram undir hádegi á mánudag. Stór hluti allra tjalda í Eyjum eyðilagðist og sömu sögu var að segja um tjöldin á Rentatent-svæðinu.

„Þetta var vissulega mjög erfitt um tíma aðfaranótt mánudags og fram undir morgun en heilt yfir gekk þetta mjög vel.

Allt okkar starfsfólk var að nánast alla nóttina að hæla niður og hlúa að tjöldum og búnaði í vindinum, það gekk ágætlega framan af en svo þegar að vindurinn tók að aukast þegar leið á nóttina var þetta orðið erfitt og tjöld og annað fór að fjúka. Maður sá alveg glitta í fljúgandi tjöld í heilu lagi í Herjólfsdalnum,“ útskýrir Ernir Skorri.

Hér sjáum við hvernig hluti svæðisins leit út þegar leið á aðfaranótt mánudags.
Er hægt að undirbúa sig fyrir svona aðstæður? 

„Við gerðum í raun ráð fyrir að þetta gæti gerst og vorum með viðbragðsáætlun klára. Um leið og við sáum hvað í stefndi báðum við um að íþróttahúsið yrði opnað en við vorum með nokkur hundruð dýnur umfram þær sem hægt var að leigja til að tækla aðstæður sem þessar. Við sendum strax hluta af okkar fólki í íþróttahúsið að blása þær upp og taka á móti okkar gestum. Við vorum einnig með aukalega 45 tjöld á staðnum til að skipta út fyrir þau sem gáfu sig ef aðstæður hefðu leyft.“

Starfsmenn Rentatent höfðu í nógu að snúast þegar rokið skall á.
Viðskiptavinir Rentatent.is tóku óveðrinu með jafnaðargeði og illa leiknir Þjóðhátíðargestir voru ánægðir með að fá þak yfir höfuðið í íþróttahúsi ÍBV. 

„Það gerðu sér allir grein fyrir því að þetta voru óviðráðanlegar aðstæður og við fundum fyrir miklu þakklæti fyrir að gera allt sem í okkar valdi stóð.“ Spurður út í hvort eyðilegging á mörgum tjöldum hafi áhrif á framhaldið hjá þeim félögum segir hann: 

„Þetta er auðvitað mjög mikið tjón en við munum yfirstíga þetta eins og allt annað. Við erum enn að vinna í því að koma óskilamunum okkar fólks til síns heima og stefni á að fara fyrir búnaðinn og stöðuna í næstu viku.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.