Lífið

„Ég þurfti botninn til að geta spyrnt mér upp“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Dagbjört segist hafa verið í mikilli helgarneyslu en nú náð að vera edrú í sex mánuði.
Dagbjört segist hafa verið í mikilli helgarneyslu en nú náð að vera edrú í sex mánuði. mynd/aðend

„Ég byrjaði að semja Love Me stuttu eftir að ég tók ákvörðun um að verða edrú á ný í fyrra,“ segir samfélagsmiðlastjarnan og tónlistarmaðurinn Dagbjört Rúriksdóttir sem frumsýnir myndband við nýtt lag hennar á Vísi í dag.

„Ég var algerlega búin á því á líkama og sál og upplifði mig sem mjög brotna manneskju í langan tíma og þráði samþykki frá öðru fólki jafn mikið og ég hafnaði sjálfri mér og því var aldrei neitt nógu gott fyrir mig sama hve mikið ég sóttist eftir því eða að ég eyðilagði fyrir sjálfri mér.“

Dagbjört segir að í undirmeðvitundinni hafi henni liðið eins og hún verið með lítið ljótt leyndarmál sem enginn mátti komast að.

Upplifði andlegt ofbeldi frá nákomnum aðila

„Það sem olli því var held ég eineltið í grunnskóla og ljót orð sem ég trúði ásamt andlegu ofbeldi frá nákomnum aðila. Því minna sem mér þótti vænt um sjálfa mig því verr fór ég með mig. Það veldur röngum ákvörðunum og mistökum sem viðhalda vítahringnum og þróa hann líka. Því lengur sem ég var í honum því meira vildi ég flýja þar til ég fékk ógeð af sjálfri mér.“

Í dag hefur hún verið edrú í sex mánuði eftir mikla helgarneyslu.

„Ég þurfti botninn til að geta spyrnt mér upp og það var það sem ég gerði og um það snýst lagið. Að elska sjálfan sig uppá nýtt þrátt fyrir mistök, sýna sér samkennd í gegnum áföllin í staðinn fyrir að kvelja sig í fórnarlambaleik áfram. Ég vona að einhver tengi og að tónlistarmyndbandið hjálpi fleirum sem finna sig á sama stað að elska sjálfan sig og að vita það að þau ein ráða hvernig líf þeirra spilast út.“

Það var besta vinkona Dagbjartar, Álfrún Kolbrúnardóttir, sem tók upp myndbandið og leikstýrði.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.