Lífið

Sigrar og mistök á leiðinni

Inklaw Clothing eru f.v. Christopher Cannon, Guðjón Geir Geirsson, Anton Birkir Sigfússon og Róbert Elmarsson MYNDIR/ERNIR
Inklaw Clothing eru f.v. Christopher Cannon, Guðjón Geir Geirsson, Anton Birkir Sigfússon og Róbert Elmarsson MYNDIR/ERNIR
Undanfarið ár hefur verið mjög viðburðaríkt hjá strákunum á bak við fatamerkið Inklaw Clothing. Á síðasta ári héldu þeir til Los Angeles þar sem þeir dvöldu í tvær annasamar vikur og í upphafi árs stóð til að flytja rekstur fyrirtækisins til New York. Þeir eyddu löngum tíma fyrr á árinu í leit að nýju og hentugu húsnæði og nýr liðsmaður, Christopher Cannon, bættist við starfsmannahópinn og eru þeir nú fjórir: Guðjón Geir Geirsson, Anton Birkir Sigfússon og Róbert Elmarsson auk Christophers.

Róbert segir undanfarna tólf mánuði hafa verið afskaplega skemmtilega en um leið krefjandi og mótandi fyrir þá félaga. „Við höfun svo sannarlega unnið marga sigra en jafnframt gert mörg mistök sem við höfum þó dregið lærdóm af sem nýtist á næstu árum. Núna er komið gott flæði í reksturinn og salan eykst jafnt og þétt milli mánaða. Við höfðum alltaf fókusað mikið á alþjóðlegan markað en upp á síðkastið höfum við unnið að því að styrkja okkur heima og gengur það virkilega vel. Það er mikill áhugi fyrir vörum okkar hér og við viljum standa undir þeim væntingum sem viðskiptavinir gera til okkar. Næsta stóra skref er að undirbúa komu okkar á heildsölumarkað. Það þýðir að við þurfum að endurskipuleggja framleiðsluferlið og þá hugsanlega með því að útvista einhverjum hluta erlendis.“

Nýja línan lítur vel út.
Stórt skref framundan

Tíminn í Los Angeles og New York var mikil rússíbanareið en um leið afar lærdómsríkur tími að sögn Róberts. Og allt bröltið erlendis kenndi þeim mikilvæga lexíu. „Hún er sú, að þótt það sé gott að fá góða hjálp þá gerir enginn hlutina fyrir þig. Ef við ætlum okkur að gera Inklaw að stóru alþjóðlegu tískumerki þurfum við að gera það sjálfir. Vð erum tilbúnir að leggja mikið á okkur svo draumurinn geti orðið að veruleika. Ef þú heldur að ein mynd af einhverri stjörnu í fötunum þínum muni breyta öllu, þá er það kolrangt. Hún hefur bara ákveðinn líftíma, og markaðssetningin þarf að vera viðvarandi.“

Hingað til hafa þeir nær eingöngu selt á netinu og framleiðsluaðferð þeirra hefur gert þeim erfitt fyrir að stunda heildsölu. Framleiðsla fyrir heildsölumarkaði krefst því róttækrar endurskoðunar á framleiðsluferlinu og nú er rétti tíminn til að stíga skrefið. „Við höfum á síðustu árum náð að byggja upp góða vörumerkjavitund erlendis og í gegnum tíðina fengið fjölmargar fyrirspurnir frá búðar­eigendum, einkum í Bandaríkjunum, um hvort hægt sé að kaupa fötin inn í heildsölu. Þetta er virkilega spennandi verkefni og er undir­búningur að þessu þegar hafinn.“

Fyrsti hluti haust- og vetrarlínu Inklaw Clothing var að koma á markað. Þar bæta þeir við sig nokkrum stílum ásamt fjölbreyttu camo-mynstri.
Instagram skiptir máli

Félagarnir hafa lagt mjög mikla vinnu og metnað í markaðssetningu á samfélagsmiðlum, þá helst á Instagram sem er að sögn Róberts tískuvænsti samfélagsmiðillinn. „Markaðssetning á samfélagsmiðlunum snýst mikið um tilraunastarfsemi og að finna hvað virkar best fyrir markhópinn. Við höfum t.d. notast við áhrifavalda ásamt því að reyna að framleiða markaðsefni sem við vitum að virkar fyrir fylgjendahóp okkar. Við fáum sennilega 5-10 fyrirspurnir á dag frá erlendum áhrifavöldum um fatnað fyrir auglýsingu af einhverju tagi. Yfirleitt er um einhvers konar „mini-celeb“ að ræða þótt stór nöfn hafi einnig sett sig í samband við okkur. Það er oft eins og að fólk þarna úti haldi að við séum eitthvert risa tískufyrirtæki af því að við erum með stóran Instagram-reikning. Það áttar sig kannski ekki á því að við erum bara nokkrir strákar frá Íslandi með netverslun að gera nánast hverja einustu flík eftir pöntun.“

Inklaw Clothing er á Instagram og facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×