Grótta, sem verður nýliði í Olís-deild karla í handbolta næsta vetur, hefur fengið til sín þá Birgi Stein Jónsson og Berg Elí Rúnarsson. Báðir skrifuðu undir samning til tveggja ára við félagið.
Grótta var í 3. sæti Grill 66 deildarinnar þegar tímabilið var flautað af vegna kórónuveirufaraldursins. Liðið var næstefst ef horft er framhjá ungmennaliðum, sem ekki geta farið upp um deild, og fór upp í úrvalsdeild samkvæmt ákvörðun HSÍ þar sem ekki gafst tími fyrir umspil.
Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, sagði í þættinum Sportið í dag í síðustu viku að hann væri vel meðvitaður um hve stórt skref væri úr Grill 66-deildinni í Olís-deildina. Erfitt yrði að styrkja liðið en hann hefði ágætis sambönd og þyrfti „að koma með góða söluræðu“. Ræðan sú virðist hafa virkað vel.
Bergur Elí, sem er 25 ára gamall, er örvhentur hornamaður sem kemur frá Fjölni. Hann skoraði 47 mörk í 17 leikjum í Olís-deildinni á síðustu leiktíð. Bergur hefur einnig leikið með FH og var hluti af KR-liðinu sem komst upp í efstu deild fyrir nokkrum árum.
Birgir er 21 árs gömul skytta sem kemur til Gróttu frá Stjörnunni þar sem hann er uppalinn. Birgir var þó liðsfélagi Bergs síðari hluta síðustu leiktíðar þegar hann lék með Fjölni sem lánsmaður. Hann skoraði 29 mörk í 5 leikjum eða 5,8 mörk að meðaltali í leik.