Körfubolti

Spilar vonandi betur á Íslandi en hann gerði á móti Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tevin Falzon í vörn á móti Hilmari Smára Henningssyni í leiknum á Smáþjóðaleiknum.
Tevin Falzon í vörn á móti Hilmari Smára Henningssyni í leiknum á Smáþjóðaleiknum. Mynd/KKÍ

Njarðvíkingar hafa væntanlega horft framhjá skelfilegri frammistöðu Tevin Falzon, í landsleik á móti hálfgerðu varaliði Íslands á Smáþjóðaleikunum í fyrra, þegar þeir sömdu við hann á dögunum.

Tevin Falzon er annar af tveimur nýjum erlendu leikmönnum Njarðvíkurliðsins á nýju ári en hinn er Litháinn Aurimas Majauskas.

Tevin Falzon spilaði tæpar 26 mínútur á móti Íslandi í 76-80 tapi á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í lok maí á síðasta ári en frammistaða hans í þessum leik var ekki upp á marga fiska.

Tevin Falzon skoraði aðeins 3 stig í leiknum þar sem hann hitti aðeins úr 1 af 9 skotum utan af velli og klúðraði 5 af 6 vítaskotum sínum. Hann var einnig með 5 tapaða bolta í leiknum

Framlag Falzon í leiknum var síðan upp á -5 og Malta tapaði þeim mínútum sem hann spilaði með heilum 22 stigum. Það þýðir að Maltverjar unnu með 18 stigum þær tæpu fimmtán mínútur sem hann sat á bekknum.

Það var allt aðra sögu að segja af AaronFalzon, bróður Tevin, en hann var frábær í þessum leik. AaronFalzon skoraði nefnilega 33 stig, hitti úr sjö þriggja stiga skotum og var með 30 framlagsstig.

Njarðvíkingarnir Elvar Már Friðriksson og Kristinn Pálsson voru hins vegar mjög flottir í þessum leik og skoruðu saman 50 stig í leiknum. Elvar 33 og Kristinn 17.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×