88 prósent svarenda í könnun Samtaka iðnaðarins meðal stjórnenda íslenskra framleiðslufyrirtækja segja mjög líklegt eða frekar líklegt að þeirra fyrirtæki grípi til hagræðingaraðgerða á þessu ári.
Í tilkynningu frá samtökunum kemur fram að könnunin bendi til að árið 202 verði ár hagræðinga þar sem fyrirtækin í greininni bregðast við áskorunum og krefjandi starfsumhverfi.
Outcome framkvæmdi könnunina fyrir SI, en athygli vekur að svarhlutfall er lágt, rúm 23 prósent. Í úrtaki voru stjórnendur 321 fyrirtækis í framleiðsluiðnaði og svöruðu 75.
„Niðurstöðurnar benda til þess að framhald verði á þeirri þróun sem þegar er hafin en launþegum í framleiðsluiðnaði hefur fækkað undanfarið. Fækkunin var komin í 4% í október í fyrra. Þetta gæti haft umtalsverð áhrif en í framleiðsluiðnaði starfa rétt tæplega 18 þúsund aðilar sem er um 9% af heildarfjölda starfandi hér á landi. En benda má á að verðmætasköpun fyrirtækja í greininni er einnig umtalsverð eða um 8% af heildarverðmætasköpun hagkerfisins,“ segir í tilkynningunni.
Launakostnaður mikil áskorun
Stjórnendur framleiðslufyrirtækjanna voru beðnir um að meta helstu áskoranir í þeirra rekstri þar sem spurt var um launakostnað, aðgengi að mannauði, sveiflur í efnahagsmálum og starfsumhverfi, skatta og opinber gjöld, aðgengi að lánsfjármagni og vöxtum, opinbert eftirlit og löggjöf og aukna áherslu á umhverfis- og loftslagsmál.
Sýndu svör að launakostnaður væri sú áskorun sem flestir stjórnendanna sögðu vera mjög mikla um þessar mundir.