Íslenski boltinn

21 dagur í Pepsi Max: Seltjarnarnes sautjánda bæjarfélagið sem á lið í efstu deild

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gróttuviti í öllu sínu veldi.
Gróttuviti í öllu sínu veldi. vísir/vilhelm

Seltjarnarnes er sautjánda bæjarfélagið sem eignast lið í efstu deild karla í fótbolta á Íslandi.

Pepsi Max deild karla fer aftur af stað 13. júní næstkomandi. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.

Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað frá sögu úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Í dag eru 30 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 13. júní næstkomandi.

Í dag verður fjallað um liðið sem þreytir frumraun sína í efstu deild á þessu tímabili; Gróttu á Seltjarnarnesi.

Uppgangur Gróttu hefur verið afar eftirtektarverður. Undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar fóru Seltirningar upp um tvær deildir á jafn mörgum árum og leika í fyrsta sinn í efstu deild í sumar. 

Þeir verða þó án Óskars Hrafns á fyrsta tímabilinu í deild þeirra bestu. Eftir síðasta tímabil hætti hann hjá Gróttu og tók við Breiðabliki af Ágústi Gylfasyni. Grótta stökk þá til og réði Ágúst.

Eins og áður sagði er Seltjarnarnes sautjánda bæjarfélagið sem á lið í efstu deild karla. Grótta hefur hingað til verið þekktara sem handboltafélag en núna spreytir fótboltalið félagsins sig á stærsta sviðinu í fyrsta sinn.

Af tólf félögum í Pepsi Max-deildinni koma tíu af Höfuðborgarsvæðinu. ÍA og KA eru einu fulltrúar landsbyggðarinnar.

Grótta er þrítugasta liðið sem leikur í efstu deild karla. Af þessum þrjátíu liðum hafa fimmtán komið frá Höfuðborgarsvæðinu.

Fyrsti leikur Gróttu í Pepsi Max-deildinni er gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli sunnudaginn 14. júní. Fyrsti leikur Gróttu á Vivaldi-vellinum sínum á Seltjarnarnesi er gegn Val laugardaginn 20. júní.  

Bæjarfélög sem hafa átt lið í efstu deild

  • Reykjavík (KR, Valur, Fram, Víkingur, Fylkir, Fjölnir, Leiknir, ÍR, Þróttur)
  • Kópavogur (Breiðablik, HK)
  • Hafnarfjörður (ÍBH, FH, Haukar)
  • Garðabær (Stjarnan)
  • Seltjarnarnes (Grótta)
  • Akranes (ÍA)
  • Akureyri (ÍBA, KA, Þór)
  • Vestmannaeyjar (ÍBV)
  • Keflavík
  • Grindavík
  • Garður (Víðir)
  • Selfoss
  • Borgarnes (Skallagrímur)
  • Ólafsvík (Víkingur)
  • Ísafjörður (ÍBÍ)
  • Ólafsfjörður (Leiftur)
  • Húsavík (Völsungur)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×