Sport

Dregur sig úr keppni á stóru pílukastsmóti vegna lélegrar nettengingar heima fyrir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vandamál með nettenginguna heima hjá Gary Anderson eru ekki ný af nálinni.
Vandamál með nettenginguna heima hjá Gary Anderson eru ekki ný af nálinni. vísir/getty

Skoski pílukastarinn Gary Anderson hefur dregið sig úr keppni á PDC Home Tour vegna slæmrar nettengingar heima hjá sér.

Þrátt fyrir að keppni í flestum íþróttum liggi niðri vegna kórónuveirufaraldursins láta pílukastarar ekki deigan síga og hugsa í lausnum. Ákveðið hefur verið að bjóða upp á sérstakt mót, PDC Home Tour, þar sem bestu pílukastarar heims stíga á stokk. Mótið hefst í kvöld og stendur yfir í rúman mánuð.

Framkvæmd PDC Home Tour er nokkuð óvenjuleg en keppendur eru heima í stofu og mætast í gegnum internetið ef svo má segja. Streymt verður beint frá mótinu á PDCTV.

Anderson átti að taka þátt á mótinu en ekkert verður af þátttöku hans því nettengingin heima hjá Skotanum er svo léleg. Það er ekki nýtt vandamál.

„Ég var klár í þetta en þegar við prófuðum nettenginguna var hún ekki nógu góð,“ sagði Anderson við The Sun.

„Þetta kom mér ekki á óvart. Ég á í vandræðum með að borga reikninga í heimabankanum sem er mjög pirrandi.“

Anderson, sem er 49 ára, varð heimsmeistari í pílukasti 2015 og 2016. Hann komst einnig í úrslit á HM 2011 og 2017. Á síðasta heimsmeistaramóti tapaði hann fyrir Nathan Aspinall í 4. umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×