Anna Björk Bjarnadóttir og Ragnheiður Hauksdóttir hafa verið ráðnar til Isavia. Báðar munu þær gegna stöðu framkvæmdastjóra á nýstofnuðum sviðum; Anna mun fara fyrir þjónustu- og rekstrarsviði Isavia og Ragnheiður verður framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni. Aukinheldur munu þær taka sæti í stjórn Isavia.
Frá þessu greinir Isavia sjálft í tilkynningu til fjölmiðla í dag. Þar segir jafnframt að Ragnheiður hafi þegar tekið til starfa en Anna Björk taki við stöðu sinni næstkomandi mánudag.
Ferill þeirra er beggja rakinn í tilkynningunni. Þar segir að Anna hafi síðast gegnt stöðu framkvæmdastjóra ráðgjafar og sérlausn hjá Advania en þar áður hafi hún verið hjá Símanum, þar sem hún sat í framkvæmdastjórn í fimm ár. Þá hafi hún verið framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins Expectus og í stjórnum fjölmargra félaga og samtaka; eins og Festu, Sensa og Viðskiptaráðs Íslands. Anna Björk tekur sem fyrr segir við nýju þjónustu- og rekstrarsviði Isavia á Keflavíkurflugvelli sem annast daglegan rekstur Keflavíkurflugvallar.
Ragnheiður kemur til Isavia frá Vodafone þar sem hún gegndi síðast stöðu framkvæmdastjóra einstaklingssviðs. Ragnheiður hefur einnig setið í stjórn Vertonets, hagsmunasamtaka kvenna í upplýsingatækni, og í fagráði Tækniþróunarsjóðs. Ragnheiður er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og Copenhagen Business School.
Ragnheiður tekur við nýju stoðsviði Isavia sem ætlað er að annast stafræna þróun og rekstur upplýsingatækni hjá félaginu. Það fer með ábyrgð á rekstri upplýsingatækni hjá Isavia, annast stafræna þróun og nýsköpun og leiða stefnumörkun félagsins í stafrænni umbreytingu.
Viðskipti innlent