Körfubolti

Friðrik Ingi: Glórulaust ef mótinu verður ekki frestað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Friðrik Ingi segir undarlegt að leikir kvöldsins í Domino's deild karla hafi farið fram.
Friðrik Ingi segir undarlegt að leikir kvöldsins í Domino's deild karla hafi farið fram. vísir/daníel

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Þórs Þ., furðar sig á því að leikir kvöldsins í Domino‘s deild karla hafi farið fram.

„Það var skrítið andrúmsloft hérna og maður hefur séð meiri ákafa inni á vellinum,“ sagði Friðrik Ingi eftir tapið fyrir Keflavík, 78-63, í kvöld.

„Við áttum í vandræðum í frákastabaráttunni og nýttum sóknirnar okkar ekki nógu vel.“

Friðrik Ingi segir að leikmenn Þórs muni safna kröftum á morgun og á sunnudaginn verði æfing. Hann segir framhaldið óljóst en býst við því að keppni Domino‘s deild karla verði frestað.

„Ég geri fastlega ráð fyrir því að við fáum fréttir um að þessu móti verði aflýst eða frestað um einhvern tíma. Annað væri glórulaust. Ég held að þetta sé eina deildin þar sem enn er verið að spila. Ég á ekki von á öðru en að menn taki skynsamlega ákvörðun,“ sagði Friðrik Ingi.

„Ef þú frestar leikjum í öðrum meistaraflokkum í sömu íþróttagrein en lætur leiki fara fram í þessari deild spyr maður sig hvort það sé einhver munur á lífum okkar hér í kvöld heldur en annarra. Hefði ekki verið nær að fresta hjá öllum strax í dag eða hjá öllum frá og með sunnudeginum. Annað hvort er þetta heilbrigðismál eða ekki. Mér fannst mjög undarlegt að leikir kvöldsins færu fram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×