Lífið

FÍT-verðlaunin 2020: Mörkun

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Verðlaunaverkefnin í flokknum Mörkun
Verðlaunaverkefnin í flokknum Mörkun

Alls voru 440 verk innsend til FÍT-verðlaun­anna 2020. Innsend verk í keppnina hafa aldrei verið fleiri en úrslitin verða kynnt hér á Vísi næstu daga. Í flokknum Mörkun voru veitt gull- og silfurverðlaun í nokkrum undirflokkum. Þeir eru firmamerki, mörkun fyrirtækja, menningar- og viðburðarmörkun, geisladiskar og plötur og svo að lokum flokkurinn umbúðir. Lista yfir alla verðlaunahafa má finna hér neðar í fréttinni ásamt umsögnum um verðlaunaverkin.

FÍT verðlaunahátíðin átti að fara fram í mars en vegna ástandsins í samfélaginu var ákveðið að tilkynna verðlaunahafana hér á Vísi og halda formlega afhendingu síðar. Næstu daga verða tilkynnt verðlaun í öllum 21 flokkunum og verður þessu skipt upp í fjórar tilkynningar. Á föstudaginn klukkan 09:00 verður svo tilkynnt hvaða gullverðlaunahafi hlýtur hin eftirsóttu aðalverðlaun FÍT. Verðlaunað verður það verk sem þykir eftirminnilegt og áhrifamikið í sínum flokki og góður fulltrúi fyrir sköpunargáfu Íslendinga í samkeppnum á alþjóðavísu.

Eftirtalin verk hljóta verðlaun í flokknum Mörkun:

Firmamerki

Gull-Yay

Gullverðlaun

YAY — YAY gjafaapp

Einfalt merki sem nær að innihalda allt heiti sitt, en virkar um leið sem stök teikning. Gleðin í nafninu, sem bókstaflega springur út í hreyfðum útgáfum merkisins, leynir sér ekki.

Hönnun: Erla & Jónas, Metall, Jónfrí.

Gull-Tré Lífsins

Gullverðlaun

Tré lífsins

Fallegt og viðeigandi merki fyrir viðkvæma þjónustu. Það er ró yfir fínlegum línunum, sem um leið ná að vera jafn nútímalegar og lausnir fyrirtækisins.

Hönnun: Einar Guðmundsson, Studio WDLND.

Silfur-Hoos

Silfurverðlaun

Hoos

Fjölbreytnin í merkinu passar vel við fjölbreytnina sem Hoos býður upp á, með stækkanlegum og breytanlegum einingum sínum.

Hönnun: Albert Muñoz, Sigurður Oddsson, Ulysses.

Silfur-Datera

Silfurverðlaun

Datera

Einfalt, sterkt og um leið klassískt merki. Stendur vel eitt og sér og ekki síður með vel útfærðri leturgerð.

Hönnun: Dóri Andrésson, Brandenburg.

Mörkun fyrirtækja

Gull-Megavika Domino´s

Gullverðlaun

Megavika Domino’s

Ótrúlega heilsteypt, fjörug og vel heppnuð mörkun sem passar vörunni mjög vel. Dæmi um mörkun þar sem er hugsað fyrir öllu, hvort sem það er prent, umbúðir, hreyfigrafík eða hljóð.

Hönnun: Hrafn Gunnarsson, Gunnhildur Karlsdóttir, Jón Páll Halldórsson, Þorvaldur Sævar Gunnarsson, Eyrún Eyjólfsdóttir Brandenburg.

Gull-Datera

Gullverðlaun

Datera

Nútímaleg og fersk mörkun á tegund fyrirtækis sem hefði hæglega getað farið „öruggari“ leið. Inniheldur allt sem mörkunin þarf og örlítið meira til, sem setur punktinn yfir i-ið.

Hönnun: Dóri Andrésson, Þorgeir K. Blöndal, Eyrún Eyjólfsdóttir, Guðmundur Pétursson, Heiðar Þór Jónsson, Brandenburg.

Silfur-Cabo Verde

Silfurverðlaun

Cabo Verde

Fjörug, litrík og frískleg mörkun, sem fær neytandann til að vilja ferðast með flugfélaginu. Léttleikinn gefur til kynna að það séu engin vandamál sem fylgja því að ferðast með Cabo Verde.

Hönnun: Dóri Andrésson, Bertrand Kirschenhofer, Íris Marteinsdóttir, Friðrik Sigurðarson, Íslenska.

Silfur-Yuzu

Silfurverðlaun

Yuzu

Óvænt og hamingjusöm nálgun á veitingastað, sem fær mann til að staldra við. Einfaldar teikningar í bland við sterka liti gera mörkunina áhugaverða.

Hönnun: Júlía Runólfsdóttir

Menningar og viðburðamörkun

Gull-BA Graduation show 2019

Gullverðlaun

BA sýning LHI — Listaháskóli Íslands

Eftirminnileg mörkun á sýningu sem þarf að halda utan um mjög ólík verkefni. Hreyfingar í mörkuninni gefa efninu auka dýpt og leturheimurinn sem var smíðaður er skemmtilegur.

Hönnun: Ármann Agnarsson og Helgi Páll.

Gull-Sequences ix

Gullverðlaun

Sequences ix — Sequences Real Time Art Festival

Hógvær og látlaus mörkun fyrir sýningu sem hefur náð fótfestu undanfarin ár. Einfalt útlitið leyfir innihaldi sýningarinnar að tala sinni rödd á hverjum stað fyrir sig og um leið geta gestir myndað sér sínar eigin skoðanir.

Hönnun: Hrefna Sigurðardóttir.

Silfur-HonnunarMars

Silfurverðlaun

HönnunarMars

Skemmtilegur orðaleikur og einfalt og eftirtektarvert útlit. Með einföldum og fáum útlitseiningum er hægt að smíða áberandi útlit á lifandi og sterka hátíð.

Hönnun: Arnar Freyr Guðmundsson, Birna Geirfinnsdóttir, Studio Studio.

Geisladiskar og plötur

Gull-Fever Dream

Gullverðlaun

Fever Dream — Of Monsters and Men

Falleg sería af plötum, sem ná bæði að vera sterk heild en um leið ótrúlega fjölbreyttar. Erfitt fyrir plötusafnarann að vilja ekki eiga allt settið.

Hönnun: Davíð Arnar Baldursson, Jón Sæmundur, Ragnar Þórhallsson.

Silfur-CELL7

Silfurverðlaun

Cell7 — Ragna Kjartansdóttir

Metnaðarfult umslag og teikning sem heldur sterkri tengingu allt í gegn, hvort sem er umslag, vasi eða platan sjálfa. Lífleg lausn sem gefur manni sterka hugmynd um tónlistina sem á henni er.

Hönnun: Eysteinn Þórðarson, Aton.JL

Umbúðir

Gull-Vetrarlína Omnom

Gullverðlaun

Vetrarlína Omnom

Fáguð, falleg og um leið fínleg pakkning, sem nær að vera spennandi með hverju lagi sem er opnað. Fallegar teikningar á súkkulaðistykkjunum skiptir öllum þrem upp í ólíkar pakkningar, sem eru um leið svo sterkt heild.

Hönnun: Veronica Filippin, Sara Riel, Omnom.

Silfur-Víking Craft

Silfurverðlaun

Viking Craft — CCEP

Einföld lausn á flóknu vandamáli, að merkja lítið upplag í einu með ólíkum en um leið mjög áþekkum umbúðum.

Hönnun: Viktor Weisshappel Vilhjálmsson, Albert Muñoz, Sigurður Oddsson, Eysteinn Þórðarson, Magnús Ingvar Ágústsson, Ulysses.

Silfur-Marberg gin

Silfurverðlaun

Marberg gin — Thoran Distillery

Skemmtilega hress og litrík leið við að hanna umbúðir sem eru tengdar sjónum, án þess að falla í gryfjur klisjunnar.

Hönnun: Geir Ólafsson, Þorleifur Gunnar Gíslason, Birgir Már Sigurðsson, Aton.JL.

FÍT, FÉLAG ÍSLENSKRA TEIKNARA var stofnað 23. nóvember 1953. FÍT keppnin er haldin árlega og þar er keppt um það besta í grafískri hönnun og myndskreytingum á Íslandi. Innsendingar í keppnina eru einnig opnar fyrir öðrum en FÍT meðlimum, enda er markmið keppninnar að endurspegla það besta í grafískri hönnun og myndlýsingum á Íslandi en ekki eingöngu það besta meðal félagsmanna.

Öll úrslit FÍT verðlaunanna 2020 verða tilkynnt hér á Vísi næstu daga. Klukkan 12 í dag verður tilkynnt um verðlaunahafa í flokknum Prent. Á fimmtudag verður tilkynnt klukkan 09:00 um verðlaun í Skjáflokknum og klukkan 12 verður afhjúpað hverjir hljóta verðlaun í flokknum Auglýsingar. Aðalverðlaun FÍT verða svo tilkynnt á föstudaginn klukkan 09.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×