Space Force. Netflix.
Netflix eru ekkert að grínast með sinni nýjustu gamanþáttaröð, Space Force. Þeir fengu Steve Carell og Greg Daniels til að skapa þættina, Carell tók að sér aðalhlutverkið og svo var John Malkovich sóttur til að leika á móti honum.
Ekki má gleyma að aukahlutverkin eru í höndum þekktra senuþjófa úr öðrum vinsælum sjónvarpsþáttum: Lisa Kudrow (Phoebe úr Friends), Jimmy O. Jang (Jian Yang úr Silicon Valley), Ben Schwartz (Jean-Ralphio úr Parks and Recreation) og hinn nýlátni Fred Willard (Frank Dunphy úr Modern Family). Gagnrýnendur hafa ekki verið sérlega hrifnir, en áhorfendur eilítið jákvæðari.
Imdb.com: 7.0 - Metacritic: 47 - Rotten Tomatoes: 38%/74%
Little Fires Everywhere. Amazon Prime.
Reese Witherspoon er manneskjan á bakvið þessa nýju þætti, sem eru sýndir á Hulu í Bandaríkjunum. Það var því heldur óvænt þegar þeir birtust skyndilega á Amazon Prime, hér á Íslandi. Þættirnir byggja á metsölubók Celeste Ng frá árinu 2017 og fjalla um fjölskyldu sem leigir mæðgum íbúð, en í ljós kemur að ekki er allt með felldu varðandi móðurina.
Imdb.com: 7.7 - Metacritic: 70. Rotten Tomatoes: 78%/63%
Insecure. Stöð 2.
Stöð 2 hefur nú tekið fjórðu seríu af HBO-gamanþáttunum Insecure til sýningar. Þeir fjalla um vandræðalegheitin í lífi Issu, svartrar konu í Los Angeles-borg. Það er Issa Rae sem bæði skóp þættina og leikur aðalhlutverkið. Nú þegar hefur verið ákveðið að gera fimmtu þáttaröð, því geta aðdáendur Issu hlakkað til enn frekari ævintýra á næsta ári.
Imdb.com 7.8 - Metacritic: 85 - Rotten Tomatoes 96%/79%
Love Life. Síminn Premium.
Love Life er ein fyrsta þáttaröðin sem HBO Max-streymisveitan tók til sýningar þegar henni var fleytt úr vör í Bandaríkjunum. Síminn Premium hefur tryggt sér sýningarréttinn hér á landi og kemur nýr þáttur vikulega. Þættirnir fjalla um ástarsambönd, en við fylgjumst með Darby (Anna Kendrick) og sjáum hvernig henni gengur að finna sér maka. Dómar gagnrýnenda hafa ekki verið neitt sérstakir, en áhorfendur virðast móttækilegri fyrir Love Life.
Imdb.com: 7.1 - Metacritic: 54 - Rotten Tomatoes: 54%/87%
Trying. Apple TV+
Gamanþættirnir Trying eru samframleiðsla Apple TV+ og BBC. Þeir fjalla um raunir hjónanna Jason og Nikki, sem geta ekki eignast barn. Þau ákveða því að ættleiða, en það mun reynast þrautin þyngri. Viðbrögðin við þáttunum hafa verið góð, og áhorfendur og gagnrýnendur eru jákvæðir í garð Trying.
Imdb.com: 7.5 - Metacritic: 67 - Rotten Tomatoes: 85%/95%
Doctor Who. RÚV.
Ríkissjónvarpið sýnir nú tólftu seríuna af endurlífgun BBC á hinni klassísku þáttaröð Doctor Who. Viðtökurnar voru mjög góðar til að byrja með, líkt og sést á mjög hárri einkunn áhorfenda á Imdb.com. Hins vegar hafa aðdáendur doktorsins upp á síðkastið verið allt annað en sáttir með þróun mála, líkt og sést þegar áhorfendaeinkunnir hvers þáttar fyrir sig eru skoðaðar á Imdb.com. Algjört hrun varð með elleftu þáttaröð, þegar nýir höfundar tóku við, en framlag þeirra hefur vakið litla lukku aðdáenda.
Imdb.com: 8.6 - Metacritic: 70 - Rotten Tomatoes: 93%/74%
The Machinery. Viaplay.
The Machinery er nýjasta þáttaröð skandinavísku efnisveitunnar Viaplay. Hún fjallar um mann sem vaknar ölvaður um borð í ferju milli Noregs og Svíþjóðar. Hann er grímuklæddur og blóðugur. Í bílnum hans er byssa og heill hellingur af reiðufé, sem hann kannast ekkert við. Hann stekkur því næst á flótta undan lögreglunni, sem ætlar að handtaka hann fyrir vopnað rán.
Imdb.com: 7.2.