Framherjinn Guðmundur Steinn Hafsteinsson er genginn í raðir KA. Samningur hans við félagið gildir út tímabilið. Þetta kemur fram á heimasíðu KA.
Guðmundur lék með Koblenz í þýsku D-deildinni í vetur. Hann var hjá Stjörnunni 2018 og 2019 og varð bikarmeistari með Garðabæjarliðinu á fyrra tímabili sínu hjá því.
Elfar Árni Aðalsteinsson, markahæsti leikmaður KA á síðasta tímabili, sleit krossband í hné í vetur og verður ekkert með í sumar. Guðmundi er ætlað að fylla skarð hans ásamt nígeríska framherjanum Jibril Aboubakar sem kom á láni frá Midtjylland í Danmörku.
Guðmundur er uppalinn hjá Val en hefur einnig leikið með HK, Víkingi Ó., Fram, ÍBV og Stjörnunni. Þá var hann eitt tímabil í herbúðum Notodden í Noregi.
Alls hefur Guðmundur leikið 128 leiki í efstu deild á Íslandi og skorað 28 mörk.
Guðmundur gæti leikið sinn fyrsta leik með KA á 31 árs afmælisdaginn sinn á sunnudaginn. KA sækir þá ÍA heim í 1. umferð Pepsi Max-deildar karla.