Bíó og sjónvarp

Fer með hlut­verk „viður­styggi­legs“ ís­lensks seðla­banka­stjóra í Euro­vision-myndinni

Atli Ísleifsson skrifar
Mikael Persbrandt ætti að vera mörgum Íslendingum kunnugur en hann hefur farið með hlutverk Gunvald Larsson í fjölmörgum kvikmyndunum um sænska lögreglumanninn Beck.
Mikael Persbrandt ætti að vera mörgum Íslendingum kunnugur en hann hefur farið með hlutverk Gunvald Larsson í fjölmörgum kvikmyndunum um sænska lögreglumanninn Beck. Getty

Sænski stórleikarinn Mikael Persbrandt mun fara með hlutverk íslenska seðlabankastjórans í Netflix-myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga sem frumsýnd verður eftir rúmar tvær vikur.

Sænskir fjölmiðlar visa í tilkynningu frá Persbrandt í morgun þar sem segir að hann muni fara með hlutverk Victor Karlsson seðlabankastjóra.

„Það er með mikilli ánægju að hafa fengið að ganga til liðs við hið stórkostlega leikaralið til að leika hinn viðurstyggilega Victor Karlsson í þessari sögu um hinn stórkostlega Eurovision-heim,“ segir Persbrandt í yfirlýsingu.

Þekktur úr Beck-myndunum

Persbrandt ætti að vera mörgum Íslendingum kunnugur en hann hefur farið með hlutverk Gunvald Larsson í kvikmyndunum um sænska lögreglumanninn Beck. Hann hefur einnig farið með hlutverk í myndunum In a Better World og Hobbitanum. Sömuleiðis fer hann með hlutverk í Netflix-þáttunum Sex Education.

Í Eurovision-myndinni fara þau Will Ferrell og Rachel McAdams með hlutverk íslensku söngvaranna Lars Erickssong og Sigrit Ericksdottir sem hafa það að markmiði að landa langþráðum sigri í Eurovision fyrir Íslands hönd.

Bond-leikarinn Pierce Brosnan og Dan Stevens úr Downton Abbey fara einnig með hlutverk í myndinni en leikstjóri hennar er David Dobkin sem hefur það meðal annars á ferilskránni að hafa leikstýrt myndunum Wedding Crashers og Shanghai Knights.

Fjöldi íslenskra leikara

Að auki fer fjöldi íslenskra leikara með hlutverk í myndinni, þar á meðal Ólafur Darri Ólafsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Nína Dögg Filippusdóttir, Tómas Lemerquis og Björn Hlynur Haraldsson.

Persbrandt er ekki einni Svíinn sem kemur við sögu við gerð myndarinnar en í síðasta mánuði var sagt frá því að sænska söngkonan Molly Sandén væri sú sem syngi rödd persónu Rachel McAdams í framlagi Íslendinga í myndinni – laginu Volcano Man.

Myndin verður frumsýnd 26. júní.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.