Sport

Katrín Tanja og hin nítján sem neita að keppa á heimsleikunum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir. Mynd/Instagram/katrintanja

Listinn af þeim sem ætlar ekki að keppa á heimsleikunum í CrossFit í ár lengist og lengist. Katrín Tanja Davíðsdóttir er á meðal þeirra sem ætlar að sniðganga leikana.

Það hefur gustað um CrossFit-heiminn undanfarnar vikur eftir hvernig samtökin tóku á dauða Bandaríkjamannsins George Floyd. Gregg Glassman, eigandi CrossFit, sagði af sér eftir fjaðrafokið en það hefur ekki lægt öldurnar.

Fimm ný nöfn hafa bæst í hópinn að undanförnu. Þar á meðal er meistarinn frá því árið 2013 og goðsögn í íþróttinni, Sam Briggs, sem og Brent Fikowski, en hann hefur unnið til silfur á leikunum.

„Þangað til CrossFit er kominn í hendur nýrra eigenda og ég get sagt að ég er stoltur CrossFit íþróttamaður, þá mun ég ekki taka þátt undir þessu nafni,“ sagði Briggs. Fikowski tók í svipaðan streng.

„Ég hef ákveðið að taka ekki þátt á heimsleikunum 2020. Ef þú hefur fylgst með fréttum undanfarnar tvær vikur er ástæðan mjög augljós.“

Þessi hafa ákveðið að sniðganga heimsleikana í ár: Noah Ohlsen, Samuel Cournoyer, Travis Mayer, Tim Paulson, Cole Sager, Chandler Smith, Brent Fikowski, David Shorunke, Adam Davidson, Jay Crouch, Emma McQuiad, Carol-Ann Reason-Thibault, Brooke Wells, Camilla Salomonsson Hellman, Kristi Eramo O'Connell, Dani Speegle, Brooke Haas, Katrín Tanja Davíðsdóttir, Amanda Barnhart, Samantha Briggs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×