Big Hand Sanitizer 400-mótið fer fram í Indianapolis í Bandaríkjunum um helgina. Þar er keppt í Nascar-kappakstrinum og er ljóst að einn bíll mun skera sig úr fjöldanum.
Ford Mustang bíll Corey LaJoie, númer 32, mun eflaust vekja mikla athygli um helgina sem og í næstu keppnum. Ástæðan er sú að samtökin Föðurlandsvinir Bandaríkjanna (e. Patriots of America) hafa gert samning þess efnis að bíllinn muni auglýsa forsetaframboð Donald J. Trump.
NEWS: Patriots of America PAC partners with GFR, for nine races in 2020 season. @CoreyLaJoie will debut this patriotic red, white, and blue scheme at @IMS this Sunday. pic.twitter.com/BojiLaYIxD
— Go Fas Racing (@GoFasRacing32) July 1, 2020
„Sem stuðningsmaður Trump mun liðið gera allt sem það getur til að tryggja sigur hans í komandi forsetakosningum,“ sagði Archie St. Hilaire, eigandi Go Fas Racing – sem LaJoie keppir fyrir - í yfirlýsingu.
Alls borguðu PAC 350 þúsund Bandaríkjadala fyrir auglýsinguna eða rúmar 48 milljónir íslenskra króna.
„Markmið okkar er að fá kjósendur til að skrá sig og mæta á kjörstað í nóvember. Við teljum þetta bestu leiðina til að koma skilaboðum okkar á framfæri og hvetjum alla Bandaríkjamenn til að láta ekki sitt eftir liggja,“ sagði Jeff Whaley fyrir hönd PAC.
Athygli vekur að auglýsingin kemur einnig á þeim tímapunkti sem Nascar-kappaksturinn færir sig af NBC-sjónvarpsstöðinni yfir á Fox.