Viðskipti erlent

Bjórþyrstir kráaraðdáendur og hárprúðir blaðamenn fagna í Bretlandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bargestir eru áfram beðnir um að haga sér.
Bargestir eru áfram beðnir um að haga sér. (AP/Frank Augstein)

Barir og hárgreiðslustofur máttu opna á nýjan leik í Bretlandi í morgun eftir margra mánaða lokun vegna kórónuveirufaraldursins. Blaðamenn fylgdust vel með hvernig allt fór fram og virtust margir nýta sér tækifærið til þess að fara í klippingu í beinni útsendingu.

Í morgun fór fram meiriháttar aflétting á aðgerðum sem Bretar hafa ráðist í til þess að stemma í stigu við faraldurinn. Þannig gátu bjórþyrstir kráaraðdáaendur og hárprúðir blaðamenn loksins fengið sér bjór eða farið í klippingu, þremur mánuðum eftir að þeim var skipað að loka vegna faraldursins.

Veitingastaðir, hótel, listgallerí, bingósalir og kvikmyndahús eru á meðal þeirra staða sem mega opna á nýjan leik svo lengi sem ákveðnum takmörkunum og reglum sé fylgt. Blaðamenn hafa fylgst vel með líkt og sjá má á myndböndunum hér fyrir neðan þar sem fréttamenn BBC nýttu sér tækifærið og fóru í klippingu í beinni útsendingu.

Þá var blaðamaður Guardian einnig mættur á bar í London í morgun þar sem nokkrir tóku daginn mjög snemma. Eins og sjá má bað kráareigandinn þá sem mættu á svæðið að fylla út eyðublað með upplýsingum um nafn, hvernig væri hægt að ná í viðkomandi, hvenær hann kom á barinn og hvenær hann fór, allt til þess auðvelda smitrakningu ef til smits kemur.

Og svo virðist sem að þeir sem mættu á krárnar í morgunsárið séu hæstánægðir.

„Þetta er eins og að vinna úrvalsdeildina,“ sagði hinn 54 ára gamli Andrew Slawinski sem pantaði sér Guinnes-bjór. Ekki eru þó allir sammála um ágæti þess að opna barina á ný. 

Þannig varaði talsmaður sjúkraflutningamanna í Bretlandi við því að búast mætti við því að bráðamóttökur víðs vegar um Bretland myndu ekki ráða við álagið sem gæti fylgt því að Bretar gætu keypt sér bjór á krá í fyrsta sinn í þrjá mánuði.

Ráðamenn í Bretlandi hafa hvatt íbúa þar til þess að nýta sér tækifærið og styðja veitingastaði og krár í nærumhverfi sínu, enda hafi margir slíkir staðir tekið á sig mikið högg eftir að hafa þurft að loka. Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið Breta grátt en þar hafa alls 44,131 látist af völdum hans, samkvæmt opinberum tölum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×