Sport

Þrjár vikur í barnið og „fjallageitin“ Anníe Mist gefur ekkert eftir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir kallaði sig fjallageit eftir að hún klifraði upp í þessa kletta komin 37 vikur á leið.
Anníe Mist Þórisdóttir kallaði sig fjallageit eftir að hún klifraði upp í þessa kletta komin 37 vikur á leið. Skjámynd/Instagram

Anníe Mist Þórisdóttir er komin 37 vikur á leið og sumir aðdáendur hennar höfðu smá áhyggjur af henni þegar þau sáu mynd af henni klífa klett í Reynisfjöru.

Íslenska CrossFit goðsögnin setti sér það markmið að æfa alla meðgönguna og það virðist vera að takast hjá okkar konu.

Nú eru bara þrjár vikur í settan tíma og Anníe Mist Þórisdóttir er á fullu að æfa. Æfingarnar hafa reyndar þróast og breyst í takt við það að bumban hafi stækkað.

Anníe Mist sagði frá því á dögunum að hún væri meira á þrekhjólinu en áður. Í nýjustu færslunni á Instagram síðu hennar má hins vegar sjá Anníe Mist búna að klifra í Reynisfjöru.

„Þrjár vikur eftir og fjallageitin er enn í fullu fjöri,“ skrifaði Anníe Mist við myndina af sér standandi í klettunum við Reynisfjöru.

Þetta er áhrifamikil mynd eins og sjá má hér fyrir ofan. Það fór líka um suma aðdáendur hennar sem þótti Anníe Mist taka þarna fullmikla áhættu.

Það eru dæmi um að fólk hafi dottið í þessum klettum og það gæti farið illa ef kasólétt kona myndi missa fótanna við þessar aðstæður.

Anníe Mist Þórisdóttir hefur örugglega passað upp á sig og framtíðardótturina sem á að koma í heiminn í byrjun ágústmánaðar.

„Í upphafi þessa þriðja hluta meðgöngunnar þá er barnið að vaxa mjög hratt og ég fann að ég var ekki að borða nóg af kalóríum. Það var þó ekki afsökun til að fá sér oftar snarl,“ skrifaði Anníe Mist.

Anníe Mist Þórisdóttir segir þó frá því að hún sé að æfa aðeins minna sem er skiljanlegt enda bumban orðin mjög stór og enn fremur mjög stutt í fæðingu.

Það má sjá færlu Anníe Mistar hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×