Íslenski boltinn

Segir Brynjólf stálheppinn að hafa klárað leikinn gegn Val

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brynjólfur Andersen Willumsson hefur verið mikið milli tannanna á fólki í sumar.
Brynjólfur Andersen Willumsson hefur verið mikið milli tannanna á fólki í sumar. vísir/bára

Brynjólfur Andersen Willumsson var umtalaðasti leikmaður síðustu umferðar Pepsi Max-deildar karla. Hann kom mikið við sögu þegar Breiðablik tapaði 1-2 fyrir Val á sunnudaginn. Eftir leikinn sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Blika, að Brynjólfur fengi ósanngjarna meðferð frá dómurum landsins og hann væri besti leikmaður deildarinnar.

Brynjólfur fékk gult spjald á 32. mínútu og braut svo tvisvar af sér eftir það. Hann fékk einnig nokkuð harkalega meðferð frá leikmönnum Vals sem brutu ítrekað á honum. Brynjólfur gerði tilkall til vítaspyrnu í seinni hálfleik en Ívar Orri Kristjánsson dæmdi ekki neitt.

„Það er mikið farið í hann en hann spilar líka þannig, hann er mikið að stíga menn út og sækja sér snertingar,“ sagði Atli Viðar Björnsson í Pepsi Max stúkunni í gær.

„Ég skil pirringinn í Óskari að hann [Brynjólfur] fái ekki nógu mikið. Brynjólfur var frábær í leiknum og Óskar á alveg rétt á að hafa þá skoðun að hann hafi verið besti maður vallarins. En hann var líka stálheppinn að endast allan tímann.“

Guðmundur Benediktsson og sérfræðingar hans sögðu að Brynjólfur hefði sloppið vel að fá ekki sitt annað gula spjald þegar hann braut á Rasmus Christiansen í seinni hálfleik. 

Brynjólfur braut svo á Birki Má Sævarssyni á 80. mínútu. Upp úr aukaspyrnunni skoraði Einar Karl Ingvarsson sigurmark Vals. Gumma og félögum fannst sú aukaspyrna ódýr.

„Ég er ekki ennþá sannfærður hvort þetta sé brot þrátt fyrir að hafa séð þetta mjög oft. En það er alla jafna dæmt á þetta,“ sagði Gummi.

Skrítin skilaboð frá Óskari

Atla Viðari fannst skrítið að Óskar Hrafn skyldi tala um Brynjólf sem besta leikmann deildarinnar og setja þannig mikla pressu á hann.

„Mér finnst þetta skrítin skilaboð frá Óskari að henda því fram að hann sé með besta leikmann deildarinnar í ungum og efnilegum leikmanni. Ég held við getum alveg efast um þá fullyrðingu, að besti leikmaður deildarinnar sé ekki búinn að skora miðað við hvað hann spilar framarlega. Hann hefur lagt upp eitt mark og fiskað eitt víti og átt þátt í tveimur mörkum sem er alltof lítið fyrir svona góðan leikmann og besta leikmann deildarinnar að mati Óskars,“ sagði Atli Viðar.

Sérfræðingarnir voru þó sammála um að hæfileikar Brynjólfs séu óumdeildir og hans bíði björt framtíð í fótboltanum.

„Ég held að það þurfi ekkert að hrekja Brynjólf neitt út. Hann fer út ef allt er eðlilegt og verður atvinnumaður í fótbolta,“ sagði Gummi.

Innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max stúkan - Umræða um Brynjólf

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×