Lífið

Joaquin Phoenix-mynd bindur óbeint enda á gíslatöku í Úkraínu

Heiðar Sumarliðason skrifar
Joaquin Phoenix tekur hér á móti Óskarsverðlaunum fyrir frammistöðu sína í Joker.
Joaquin Phoenix tekur hér á móti Óskarsverðlaunum fyrir frammistöðu sína í Joker.

Bandaríski leikarinn Joaquin Phoenix og heimildarmyndargerðarmaðurinn Shaun Monson urðu óvæntir bjargvættir í gíslatöku í Úkraínu. Það var í gærmorgun sem dýraverndarsinninn Maksym Kryvosh tók þrettán manns í gíslingu um borð í rútu í borginni Lutsk. Kröfur hans voru á þá leið að nokkrir opinberir embættismenn, sem og ákveðnir meðlimir úkraínsku réttrúnaðarkirkjunnar, myndu gangast við því að þeir væru hryðjuverkamenn. Einnig vildi hann að forseti landsins, Volodymyr Zelensky, myndi á samfélagmiðlum hvetja fólk til að horfa á heimildarmyndina Earthlings. 

Lögregla hefur hér lokað af svæðið þar sem gíslatakan átti sér stað.

Heimildarmyndin fjallar um ómannúðlega meðferð dýra í landbúnaði og vísindaskyni, og inniheldur ljót myndbönd af þjáningu þeirra. Dýraverndarsinninn Phoenix er sögumaður myndarinnar, en hann hélt t.a.m. innblásna ræðu um verndun dýra þegar hann tók á móti Óskarsverðlaunum, sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á Joker, í samnefndri kvikmynd. 

Kryvosh sleppti þremur gíslanna þegar forsetinn samþykkti að birta tengil á myndina á Facebook og hvetja fylgjendur sína til að horfa á hana. Eftir birtinguna sleppti Kryvosh öllum gíslunum, en skilaboðum forsetans var eytt af Facebook um leið og mannræninginn var kominn í járn. 

Kryvosh hefur áður komist í kast við lögin og setið í fangelsi fyrir fjársvik og ólöglegan vopnaburð. Innanríkisráðherra Úkraínu, Arsen Avakov, fordæmdi Kryvosh, en sagði þó gjarðir hans ekki mega kasta rýrð á heimildarmyndina, sem hann mælti með. 

Hægt er að sjá alla myndina á Youtube.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.