Í síðustu viku spurðum við lesendur hvort að þeir kjósi að hafa kveikt eða slökkt þegar stundað er kynlíf. Til að sjá hvort að það væri einhver munur á svörum kynjanna var könnunin að þessu sinni kynjaskipt. Alls tóku rúmlega 5500 manns þátt í könnuninni.
Samkvæmt niðurstöðunum segir meirihluti karlmanna vilja hafa kveikt ljósin á móti rúmlega þriðjungi kvenmanna.
Til þess að spyrja út í muninn á svörum kynjanna höfðum við samband við Siggu Dögg kynfræðing.
Sigga segir að henni finnist munurinn á svörum kynjanna ekki það mikill og óþarfi sé að blása það frekar upp.
„Ég myndi frekar fara út í það að hvetja fólk til að ræða saman um lýsingu. Hvað finnst fólki góð lýsing þegar það er að gera það kósý eða huggulegt. Það er mikilvægt að fólk tali saman um hvað það fílar og prófa sig svo áfram.“
Sumir vilja slökkva á einu skilningarviti til að efla önnur skilningarvit og er oft talað um það að þegar fólk loki augunum sé það að njóta betur. Getur það eitthvað tengst þessu?
„Já algjörlega, það að vilja hafa slökkt ljósin þarf ekkert alltaf að tengjst óöryggi heldur getur það líka verið fantasía hjá mörgum, að sjá ekki. Alveg eins getur það verið fantasía hjá öðrum að vilja hafa kveikt ljós.“
Hægt er að sjá nákvæmari niðurstöður hér fyrir neðan:
Konur svara:
Kveikt - 37%
Slökkt - 28%
Alveg sama - 35%
Karlmenn svara:
Kveikt - 60%
Slökkt - 10%
Alveg sama - 30%
Makamál mættu í Brennsluna á FM957 á föstudagsmorgun og ræddu niðurstöðurnar. Einnig var kynnt til leiks ný Spurning vikunnar. Hægt er að hlusta á líflegar umræður hér fyrir neðan.
*Tekið skal fram að niðurstöður byggjast eingöngu á svörum lesenda Vísis og því ekki hægt að alhæfa um niðurstöður. Kannanir Makamála eru ætlaðar til skemmtunar og til að vekja umræðu og athygli á ýmsum málefnum.