Umfjöllun og viðtöl: Fylkir - HK 3-2 | Fylkismenn aftur á sigurbraut

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valdimar Þór Ingimundarson skoraði eitt mark gegn HK og lagði upp tvö.
Valdimar Þór Ingimundarson skoraði eitt mark gegn HK og lagði upp tvö. vísir/vilhelm

Fylkir vann 3-2 sigur á HK á Würth-vellinum í Árbænum í kvöld. Djair Parfitt-Williams, Arnór Gauti Ragnarsson og Valdimar Þór Ingimundarson skoruðu mörk Fylkismanna sem komust aftur á sigurbraut eftir tvö 3-0 töp í röð.

Valgeir Valgeirsson skoraði bæði mörk HK sem var yfir í hálfleik, 1-2. Í byrjun seinni hálfleiks skoraði Fylkir tvö mörk og sneri dæminu sér í vil.

Eftir að hafa spilað frábæra vörn gegn Breiðabliki í síðustu umferð fór HK í sama farið og í nánast öllum leikjum sínum í sumar. Fyrstu tvö tímabilin undir stjórn Brynjars Björns Gunnarssonar var sterkur varnarleikur aðalsmerki HK. Nú verst liðið bara til hátíðarbrigða. HK-ingar hafa haldið hreinu gegn KR-ingum og Blikum en fengið 22 mörk á sig í hinum sjö leikjunum. Hver sem er sér að það gengur ekki til lengdar.

Fylkir náði forystunni á 16. mínútu með fallegu marki. HK tapaði boltanum, Valdimar var fljótur að hugsa og skipti yfir á hægri kantinn á Djair Parfitt-Williams sem var einn gegn Ívari Erni Jónssyni. Hann lék á hann og skoraði með góðu skoti.

Adam var ekki lengi í paradís því aðeins fjórum mínútum síðar var HK búið að jafna. Valgeir fylgdi þá eftir eigin skoti sem var bjargað á línu.

Tveimur mínútum síðar varði Arnar Freyr Ólafsson frá Arnóri Gauta Ragnarssyni. Boltinn hrökk fyrir Valdimar sem skaut yfir úr dauðafæri.

Valgeir kom HK yfir á 29. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf Ívars frá vinstri. Fylkismenn voru ósáttir og vildu meina að Valgeir væri rangstæður en aðstoðardómarinn hélt flaggi sínu niðri.

Atli Sveinn Þórarinsson og Ólafur Stígsson, þjálfarar Fylkis, gerðu tvöfalda skiptingu í hálfleik. Ragnar Bragi Sveinsson og Birkir Eyþórsson komu inn á fyrir Arnar Svein Geirsson og Sam Hewson.

Skiptingarnar hleyptu nýju blóði í Árbæinga sem byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti. Valdimar var tvisvar sinnum nálægt því að skora áður en hann komst í þriðja færið á 55. mínútu. Hann fékk þá boltann inn fyrir vörn HK frá Parfitt-Williams, lyfti boltanum yfir Arnar Frey og Arnór Gauti potaði honum svo yfir línuna til öryggis.

Sjö mínútum síðar skoraði Valdimar sigurmark Fylkis úr vítaspyrnu. Hún var dæmd eftir að Ásgeir Börkur braut klaufalega á Parfitt-Williams.

Eftir því sem leið á seinni hálfleikinn fór HK að sækja meira og undir lokin var pressa gestanna ansi þung. Ásgeir Marteinsson komst næst því að skora þegar hann skaut í slá úr dauðafæri á 79. mínútu. HK-ingar vildu einnig fá víti í uppbótartíma en Pétur Guðmundsson, dómari leiksins, dæmdi ekki neitt.

Fylkismenn héldu út og fögnuðu sínum fjórða sigri í sumar. Þeir eru með fimmtán stig á meðan HK-ingar eru áfram með átta stig.

Af hverju vann Fylkir?

Breytingarnar sem Atli Sveinn og Ólafur gerðu í hálfleik breyttu leiknum. Fylkismenn voru sterkari í upphafi seinni hálfleikur og sá kraftur sem þeir sýndu þá sneri stöðunni þeim í vil. Skyndisóknir Fylkis voru baneitraðar og HK-ingar réðu lítið við Valdimar og Parfitt-Williams.

Fylkismenn þurftu á öllu sínu að halda til að verja forskotið undir lokin en gerðu nóg og fyrir utan sláarskotið hjá Ásgeiri fengu HK-ingar engin teljandi færi. 

Hverjir stóðu upp úr?

Tveir af bestu ungu leikmönnum deildarinnar, Valdimar og Valgeir, sýndu hvers þeir eru megnugir í leiknum í kvöld. Valdimar skoraði eitt mark, gaf tvær stoðsendingar og var alltaf ógnandi. Sendingin hans á Parfitt-Williams í fyrsta marki Árbæinga var sannkallað augnakonfekt.

Parfitt-Williams var hættulegur á hægri kantinum, skoraði og fiskaði vítið sem sigurmarkið kom úr. Ragnar Bragi og Birkir áttu góða innkomu og Arnar Darri Pétursson stóð sig vel í sínum fyrsta deildarleik í marki Fylkis.

Valgeir skoraði tvö mörk og allur sóknarleikur HK fór í gegnum hann eins og áður. Drengurinn er ekkert eðlilega viljugur og beinskeyttur og gengur ávalt fram með góðu fordæmi.

Hvað gekk illa?

HK sýndi nær fullkomna einbeitingu í varnarleiknum gegn Breiðabliki í síðustu umferð en í kvöld var það sama uppi á teningnum og svo oft í sumar. HK-ingar voru of opnir til baka, sérstaklega eftir að þeir misstu boltann, og það nýttu Fylkismenn sér til hins ítrasta.

Ásgeir Börkur var slakur á sínum gamla heimavelli, hafði enga stjórn á Valdimar og fékk á sig afar klaufalegt víti. Ívar lagði upp annað mark HK en átti í tómum vandræðum með Parfitt-Williams og fékk auk þess takmarkaða hjálp með hann.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leiki gegn liðum í Lengjudeildinni í Mjólkurbikarnum á fimmtudaginn. Fylkir sækir Fram heim á meðan HK fær Aftureldingu í heimsókn.

Atli Sveinn: Miklu áræðnari og grimmari í seinni hálfleik

Atli Sveinn og Ólafur Stígsson stýra Fylki í sameiningu.vísir/vilhelm

Atli Sveinn Þórarinsson, annar þjálfara Fylkis, var glaður í bragði eftir sigurinn á HK, 3-2, í kvöld. Fylkismenn voru undir í hálfleik, 1-2, en sneru dæminu sér í vil í upphafi seinni hálfleiks.

„Við vorum mjög ósáttir með okkur sjálfa eftir fyrri hálfleikinn. Við gerðum barnaleg mistök í varnarleiknum sem HK nýtti sér mjög vel. En við vorum miklu áræðnari og grimmari í seinni hálfleik og skoruðum tvö góð mörk,“ sagði Atli Sveinn eftir leik.

„Svo pressuðu HK-ingar okkur mjög stíft undir lokin en mér við svara því mjög vel sem lið. Við vorum reyndar líka heppnir en frábært að landa þessu.“

Atli Sveinn og meðþjálfari hans, Ólafur Stígsson, gerðu tvöfalda skiptingu í hálfleik, settu Ragnar Braga Sveinsson og Birki Eyþórsson inn á fyrir Arnar Svein Geirsson og Sam Hewson.

„Við vorum ánægðir með þá eins og alla sem komu inn á. Við vitum að við erum með mjög jafnan og góðan hóp. Því miður missum við Birki út í háskólanám núna,“ sagði Atli Sveinn.

Eftir fjóra sigra í röð tapaði Fylkir gegn KR og Val, samtals 0-6. Atli Sveinn er að vonum sáttur með að vera kominn aftur á sigurbraut.

„Að sjálfsögðu, það er miklu skemmtilegra. En þessi deild er þannig að við getum tapað fyrir öllum og teljum okkur geta unnið alla,“ sagði Atli Sveinn að endingu.

Brynjar Björn: Vorum ekki nógu góðir í stöðunni einn á móti einum

Brynjar Björn ásamt aðstoðarmanni sínum, Viktori Bjarka Arnarssyni.vísir/bára

„Ég er bara svekktur með mörkin sem við fengum á okkur, upp úr hverju þau komu. Fylkir átti tvær sóknir í seinni hálfleik og skoraði tvö mörk sem er ekki nógu gott,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, eftir tapið fyrir Fylki í Árbænum, 3-2, í kvöld.

„Við brugðumst ágætlega við og settum þrýsting á þá, áttum skot í slá og gerðum tilkall til vítaspyrnu í eitt til tvö skipti en ég átti erfitt með að sjá það. Við áttum kannski engin dauðafæri en ágætis möguleika.“

Brynjar Björn virkaði mjög ósáttur við dómgæsluna á Würth-vellinum í kvöld. Hann vildi þó ekkert tjá sig um hana eftir leik.

„Ég nenni ekki að tala um dómarana. Þeir eiga ekki að vera til umræðu og eru bara ekki hluti af jöfnunni í okkar leik,“ sagði Brynjar Björn.

Eftir að hafa haldið hreinu gegn Breiðabliki bilaði vörn HK aftur í leiknum í kvöld. HK-ingar hafa haldið hreinu gegn KR-ingum og Blikum í sumar en fengið á sig 22 mörk í hinum sjö deildarleikjunum.

„Við verðum að klára þessar stöður. Við vorum með fulla einbeitingu á móti KR og Breiðabliki en svo slökknar á okkur. Við gleymum okkur, horfum á boltann og sjáum ekki hlaup í kringum okkur,“ sagði Brynjar Björn.

HK-ingar virkuðu mjög opnir til baka þegar þeir töpuðu boltanum í leiknum í kvöld. Og upp úr því fengu Fylkismenn sín bestu færi.

„Við virðumst vera opnir til baka. Engu að síður erum við komnir til baka nokkuð margir en vorum ekki nógu góðir í þessari einn á móti einum stöðu,“ sagði Brynjar Björn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira