Lífið

Lúxussnekkjur við landið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Horizons III er rúmir 70 metrar á lengd. Myndin er ekki tekin á Vestfjörðum
Horizons III er rúmir 70 metrar á lengd. Myndin er ekki tekin á Vestfjörðum Horizons III

Lúxussnekkjan Calypso, sem skráð er á Cayman-eyjum, liggur nú við bryggju á Höfn í Hornafirði. Snekkjan, sem er engin smásmíði, kom til Hafnar frá Vestmannaeyjum samkvæmt upplýsingum frá vefsíðunni MarineTraffic.

Snekkjan er rúmlega 61 metri á lengd og býður upp á svefnpláss fyrir 12 farþega. Hún var byggð árið 2003 og gerð upp árið 2017. Þá telur áhöfn snekkjunnar og starfsfólk alls fjórtán manns auk skipstjóra.

Á þilfari snekkjunnar er að finna heitan pott, en undir niðri má meðal annars finna bíósal og líkamsræktartæki. Eitthvað af minni sjófarartækjum eru þá um borð, til dæmis sæþotur (e. jet ski) Eins er í boði úrval köfunarbúnaðar, hafi farþegar hug á því að skoða sig um neðansjávar. Hægt er að leigja snekkjuna á minnst 300 þúsund dollara á viku, eða tæplega 41 milljón króna.

Þá er önnur og enn stærri snekkja á Vestfjörðum. Um er að ræða snekkjuna Horizons III. Sú er skráð á Marshall-eyjum og er rúmir 70 metrar á lengd. Hún býður upp á sama fjölda svefnplássa og Calypso, en í áhöfninni geta verið allt að 21. Eins er sama lúxus að finna í Horizons III og í Calypso.

Það er þó heldur dýrara að leigja Horizons III. Til þess þyrfti að reiða fram minnst 600 þúsund dollara fyrir eina viku, eða tæplega 82 milljónir íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.