Bíó og sjónvarp

Disney fer nýjar leiðir með útgáfu Mulan

Heiðar Sumarliðason skrifar
Disney gefur Mulan út á Disney+ streymisveitunni.
Disney gefur Mulan út á Disney+ streymisveitunni.

Disney-myndinni Mulan hefur verið margseinkað vegna Covid-19 bylgjunnar og var hún nýverið tekin af útgáfuplaninu og sett í geymslu. Óvissuástandinu varðandi þessa leiknu endurgerð samnefndrar teiknimyndar frá 1998 er nú lokið. Disney tilkynnti í dag að hún muni ekki koma í kvikmyndahús heldur fara beint í útleigu í gegnum Disney+ streymisveitu kvikmyndaversins. Þetta mun gerast þann 4. september n.k. en Mulan átti upprunalega að koma í kvikmyndahús í mars á þessu ári.

Myndin mun hins vegar fara í bíó á þeim svæðum sem bjóða ekki enn upp á Disney+. Þetta setur ákveðið spurningarmerki við útgáfuna á Íslandi, en tilkynnt hefur verið að streymisveitan muni verða í boði hér á landi frá og með 15. september. Því er spurning hvort íslenskir áhorfendur fái að sjá hana í bíói, en heimasíða Sam-bíóanna segir hana væntanlega 21. ágúst, á meðan heimasíða Smárabíós segir hana frumsýnda 18. september. Íslandsútgáfan hlýtur þó að skýrast á næstu dögum.

Disney gerði Mulan-sögunni skil í teiknimyndaformi árið 1998.

Forstjóri Disney Bob Chapek segir þetta ekki vera það sem koma skal hjá kvikmyndaverinu, heldur einungis viðbragð við núverandi ástandi. Blaðamenn kvikmyndatímaritsins Variety telja það hins vegar geta breyst ef sala myndarinnar gengur vel. Mulan kostaði heilar 200 milljónir dollara í framleiðslu, því er ansi mikið í húfi fyrir Disney að vel takist til. Tilraunin gæti sprungið í andlitið á Disney þar sem stafræn leiga myndarinnar í Bandaríkjunum mun kosta heila 29.99 dollara fyrir áskrifendur Disney+, en það er ofan á þá tæpu sjö dollara sem áskrift að streymisveitunni kostar. Þetta er tíu dollurum meira en leigan á Trolls World Tour kostaði, þegar hún kom beint á VOD fyrir stuttu. Fólki gæti þótt þetta of há upphæð og haldið að sér höndunum, enda fjárhagur margra bandarískra heimili ekki upp á marga fiska þessa dagana, á tímum þar sem atvinnuleysi er það mesta síðan í kreppunni miklu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.