Útgerðarfélagið Samherji ber Ríkisútvarpið og fréttamanninn Helga Seljan þungum sökum í myndbandi sem fyrirtækið birtir í dag. Þar er því haldið fram að við gerð Kastljóssþáttar árið 2012 hafi Helgi vísvitandi falsað gögn og að skýrsla Verðlagsstofu skiptaverðs frá árinu 2010 sem Helgi vitnaði ítrekað í í þættinum, hafi aldrei verið unnin.
Fréttablaðið fjallar um málið í morgun og þar segir að blaðið hafi fengið það staðfest hjá Verðlagsstofu að skýrslan hafi aldrei verið til. Í myndbandinu er vitnað í það sem sagt er vera leynileg upptaka af samtali Helga við Jón Óttar Ólafsson hjá Samherja frá árinu 2014 þar sem Helgi viðurkennir að hann hafi ekki fengið neinn hjá Verðlagsstofu til að staðfesta að skýrslan hafi verið unnin.
Seðlabankinn gerði Húsleit hjá Samherja sama dag og Kastjósþátturinn fór í loftið og fór í kjölfarið í mál við fyrirækið en Samherji var á endanum sýknaður í Hæstarétti. Skýrslan umtalaða var ekki á meðal gagna í því máli. Í blaðinu segir einnig að Helgi hafi neitað að tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.
Blaðið ræðir þá við Þorstein Má Baldvinsson sem segir að Seðlabankamálinu svokallaða sé ekki lokið, málarekstur hefjist í september þar sem Samherji krefst þess að fá endurgreiddan kostnað vegna málarekstursins við Seðlabankann.
Uppfært klukkan 10:
Þáttinn má nálgast hér að neðan.