Hjónin Ása Hulda Oddsdóttir og Hörður Þór Jóhannsson eiga von á barni, en þau hafa um árabil staðið í baráttu við ófrjósemi. Ása greindi frá því á Instagram-reikningi sínum að þau hjónin ættu von á barni í júlí.
„Eftir 11 ára samband (3 ár af því að reyna án árangurs að eignast barn) gekk allt saman á endanum! Öll þessi þrjóska, fjöldinn allur af mismunandi hormóna töflum, aukaverkanir og vanlíðanin sem fylgdi öllu þessu ferli skilaði sér að lokum. Ég get ekki lýst því hversu hamingjusöm við vorum þegar við sáum loksins fyrsta jákvæða þungunarprófið í október 2019, eftir allan þennan fjölda af neikvæðum prófum og gráti,“ skrifar Ása meðal annars með færslunni, en hana má sjá hér að neðan.
Þau hjónin hafa verið afar opin um baráttuna við ófrjósemi, en Ása er með sjúkdóminn fjölblöðruheilkenni og endómetríósu. Þau hjónin komu í Ísland í dag á Stöð2 síðastliðið haust og ræddu baráttu sína, en viðtal við þau má sjá hér að neðan.