Síðastliðið vor lést ung kona eftir átök við lögreglumenn sem höfðu afskipti af henni þegar hún var í geðrofsástandi. Lögreglumennirnir voru ekki ákærðir fyrir brot í starfi þrátt fyrir að réttarmeinafræðingur fullyrði að aðgerðir þeirra hafi átt umtalsverðan þátt í dauða hennar. Í Kompás ræðum við við foreldra konunnar sem telja lögreglu hafa farið offari við handtökuna.
Hekla Lind Jónsdóttir var aðeins 25 ára þegar hún lést eftir að lögregla hafði afskipti af henni þegar hún var í geðrofsástandi eftir neyslu fíkniefna þann 9. apríl síðastliðinn.
Heklu er lýst sem skemmtilegu barni, hún var mikill dýravinur og vinamörg. Hún var alltaf fyrirmyndarnemandi og tvítug útskrifaðist hún af náttúrufræðibraut Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Hún hafði mikinn áhuga á heilsu og líkamsrækt og byrjaði að stunda vaxtarrækt af fullum krafti 18 ára.
„21 árs þá byrjar hún i rauninni að fikta við læknadóp og hún var rosalega klár að verða sér út um það. Fór til læknis eða gekk á milli lækna jafnvel. Hún var rosalega mikið heilsugúru og hafði mikið vit á lyfjum. Hún gat tekið læknana og snúið þeim við. Ef hún vildi fá fimmtíu diazepam töflur sem er ekki einu sinni afgreitt á læknavaktinni, þá fékk hún það. Hún sagði bara ég þarf þetta og þetta og þetta út af þessu og þessu og fékk það,“ segir Guðrún Haraldsdóttir, móðir Heklu Lindar.
Á þessum tímapunkti var Hekla farin að ánetjast lyfseðilsskyldum lyfjum en fór svo að fikta við önnur efni, til dæmis kókaín og amfetamín. Fíknin heltók Heklu og varð neyslan meiri næstu ár. Undir lokin var hún farin að fara í geðrof vegna neyslunnar.
Hafði neytt örvandi efna og róandi lyfja
Hún hringdi í föður sinn um kvöldið og sagðist ætla að vera hjá vinkonu sinni sem var nýflutt. Hún ætlaði að hjálpa henni að stilla upp í íbúðinni og laga til.
„Ég segi við hana ég tala við þig í fyrramálið og svo kvöddumst við og ég vissi ekki meira fyrr en um morguninn,“ segir Jón Ingi Gunnarsson, faðir Heklu.
Jón og Guðrún fengu símtal um morguninn. Þeim var tilkynnt að dóttir þeirra hefði farið í hjartastopp í bakgarði í miðbæ Reykjavíkur. Þegar þau komu á spítalann var Hekla í öndunarvél og lífsmark lítið sem ekkert. Hún var úrskurðuð látin nokkrum klukkutímum síðar.
Kvöldið áður hafði Hekla verið með vinum sínum í íbúð í miðbæ Reykjavíkur þar sem mikið var um eiturlyf. Hún hafði neytt örvandi efna, amfetamíns og kókaíns, og einnig tekið inn róandi lyf. Hekla fór í geðrof og hljóp út úr húsinu í mikilli geðshræringu og var óviðráðanleg að sögn vitna, berfætt og án yfirhafnar. Vinur hennar fór á eftir henni.
„Hún hleypur fram hjá spítalanum og niður á Snorrabraut, dettur í einhvern skurð og krafsar sig þar upp, og heldur áfram yfir Snorrabrautina og inn í þennan garð,“ segir Guðrún.
Sjúkrabíllinn kom ekki
Vinur Heklu hringdi nokkrum sinnum í Neyðarlínuna og bað um sjúkrabíl enda taldi hann Heklu þurfa læknishjálp. Sjúkrabílinn kom ekki en tveir lögreglumenn mættu á vettvang sem kom henni í enn meira uppnám að sögn vinarins og reyndi Hekla að flýja undan þeim.
„Eins og við skiljum þetta hleypur hún yfir brautina og lögreglan á eftir og hún fer yfir garð og stekkur niður girðingu og þar ná þeir henni. Þar segja þeir að hún hafi ætlað inn í kjallaraíbúð. Hún var að klóra í einhvern glugga þegar lögreglan tekur hana,“ segir Jón.
Var með æsingsóráðsheilkenni
Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum krufningar segir að að teknu tilliti til kringumstæðna, svo sem líkamlegrar áreynslu, ofsafenginnar hegðunar, misnotkunar efna sé líklegt að Hekla hafi verið með æsingsóráðheilkenni. Í því ástandi geti þvinguð lega Heklu á grúfu hafa leitt til dauða hennar.
Guðrún segist hafa fengið símtal klukkan 04:30 um morguninn frá lækni sem sagðist vera bæði með góðar og slæmar fréttir.
„Slæmu séu þær að Hekla Lind hafi farið í hjartastopp. Góðu fréttirnar séu þær að það hafi gerst í höndunum á lögreglu. Þetta glymur í höfðinu á mér dag eftir dag. Mér finnst þetta svo kaldhæðnislegt.“
„Hún dó bara í miðjum slagsmálum, þetta er sturlað“
Enginn veit nema lögreglumennirnir tveir nákvæmlega hvað gerðist í garðinum en eftir að þeir höfðu handjárnað Heklu fór hún í hjartastopp. Samkvæmt fjarskiptagögnum lögreglu liðu tvær mínútur og 14 sekúndur frá því lögreglumenn tilkynntu um að búið væri að handjárna Heklu þar til tilkynnt var um skerta meðvitund og óskað er eftir sjúkrabíl á vettvang.
Þegar lögreglumennirnir tveir fóru aftur í lögreglubílinn sagði annar við hinn: Hún dó bara í miðjum slagsmálum, þetta er sturlað, hún dó.
Engar upptökur til af handtökunni
Einungis eitt vitni, sem statt var í kjallaraíbúð hússins, sá handtökuna sjálfa en þó þannig að vitnisburðurinn byggðist eingöngu á því sem það heyrði í gegn um glugga því gluggatjöld byrgðu því sýn. Engar upptökur eru til af handtökunni.
Héraðssaksóknari hóf rannsókn á málinu og höfðu lögreglumennirnir tveir réttarstöðu sakbornings í nokkra mánuði. Málið var látið niður falla í lok sumars þar sem það var ekki talið líklegt til sakfellis. Guðrún og Jón eru hins vegar sannfærð um að lögregla hafi farið offari og Hekla látist vegna átakanna.
„Þetta gekk bara of langt,“ segir Jón.
„Það var greinilega æsingur í gangi og áverkarnir gríðarlega miklir á henni. Réttarmeinafræðingurinn segir að hún hafi aldrei átt möguleika.“
Í áliti réttarmeinafræðings sem byggt var á niðurstöðu krufningar og vitnisburðum lögreglumannanna segir að Hekla hafi dáið vegna hjartastopps í kjölfar æsingsóráðsheilkennis ásamt líkamlegri örmögnun og röskun og öndun, með óeðlilegum hætti.
Með áverka vegna ofsafenginna högga
Samkvæmt krufningarskýrslu var Hekla með margþætti áverka, margúla – það er slæmt mar, klórför og blæðingar víðs vegar um líkamann.
Þá segir í álitsgerðinni að sumir áverkanna séu vegna ofsafenginna högga, mjög líklega þrýstingshögga sem gætu hafa haft áhrif á öndunargetu hennar. Þá segir að vitnisburðir lögreglumannanna séu ekki alfarið í samræmi við áverkana og niðurstöðu krufningar.
„Hún var ekki glæpamaður“
Hekla hafi til að mynda verið með tvíráka margúl á hægri fótlegg og útlínur hans í samræmi við snertingu við hart, langt og stíft áhald og gæti hafa orðið við högg með lögreglukylfu.
„Það var kallað eftir sjúkrabíl fyrir hana því hún var í geðrofi og þurfti hjálp. Hún var ekki búin að brjóta neitt af sér. Hún var ekki glæpamaður en þessir lögreglumenn virðast hafa ráðist á hana og legið þannig á henni með hné í bak og axlir þannig það voru gríðarlega miklir áverkar. Eins og réttarmeiningarfræðingur segir þá átti hún bara aldrei möguleika. En jafnframt að þetta var algjörlega óþarft og þurfi ekki að koma til,“ segir Jón.
Í álitinu segir einnig að með teknu tilliti til hæðar og þyngdar Heklu megi ætla að hörð átök milli lögreglumanna og hennar hafi átt sér stað í um fimm mínútur. Átökin hafi haft slæm áhrif á efnaskiptaröskun í líkama hennar, eftir flótta frá lögreglu og klifur yfir vegg. Þá verði að taka tillit til æsingsóráðsástands en einstakling í slíku ástandi er ekki auðvelt að ráða við.
Báðir meðvitaðir um að hún væri sjúklingur
Í niðurstöðu Héraðssaksóknara má lesa framburð lögreglumannanna. Þeir segjast hafa átt erfitt með að hemja Heklu þar sem hún barist um. Saman hafi þeir náð að handjárna Heklu sem lá á maganum og hafi á meðan á því stóð hvor um sig stutt hné á herðablaðssvæði hennar.
Báðir hafi þeir verið full meðvitaðir um að hún væri sjúklingur og þeir ekki sett þunga á hana. Annar hafi þá farið að sækja plastbönd í bílinn til að bensla fætur hennar. Er hann hafði benslað fætur hennar hafi honum fundist hún vera orðin hreyfingarlítil og líflaus. Hann hafi þá ekki fundið lífsmörk og endurlífgun verið hafin.
Annar 129 kíló og hinn rúm 100 kíló
Í þann mund er búið var að handjárna Heklu mættu þrír aðrir lögreglumenn á vettvang. Framburður þeirra er ólíkur um það hvort Hekla hafi verið að sparka frá sér eða aðeins verið á iði áður en fætur hennar voru benslaðar. Eftir það fór hún í hjartastopp.
„Hún var ekki að fara neitt þarna liggjandi á maganum. Það átti bara að bíða eftir sjúkrabíl og sprauta hana niður. Ekki þjarma svona að henni,“ segir Guðrún.
Þetta sé að þeirra mati kolröng leið til að meðhöndla manneskju í geðrofi, sem var jafnframt undir miklu líkamlegu álagi eftir hlaupin.
„Hún er svo hrædd að hún er bara að springa. Þetta er bara eins og hún hafi hlaupið tvö eða þrjú maraþonhlaup. Þannig að taka manneskju í þessu ástandi og binda hana og halda henni svo með þessum þunga sem þeir höfðu, hún var bara 160 cm á hæð, lítil og nett. Annar þeirra var 129 kíló og hinn rúm 100. Þannig að 230 kíló á bakið í brjálæðiskasti - það þarf ekkert að hugsa þetta mikið meira,“ segir Guðrún.
Haldið niðri á mjög „agressivan“ hátt
Í gögnum málsins kemur fram að að vitnið hafi einungis séð skugga af fólki sem var fyrir utan gluggann og heyrt það sem fór fram. Það hafi séð lögreglumennina tvo reyna að ná stjórn á Heklu sem haldið var niðri á mjög „agressivan“ hátt. Lögreglumennirnir hafi verið á hnjánum og það hafi túlkað það þannig að þeir hefðu sett hné á axlir Heklu.
Af hljóðunum að dæma hafi verið reynt að halda léttilega fyrir munn Heklu eins og til að ná stjórn á henni. Hekla hafi þá reynt að öskra en síðan hafi allt orðið hljótt. Þá hafi endurlífgunartilraunir byrjað. Aðspurt sagðist vitnið ekki hafa séð lögreglumenn halda fyrir munn Heklu heldur einungis heyrt þessi bældu hljóð. Í sérfræðiáliti réttarmeinafræðingsins er tekið fram að engin skýr merki hafi verið um að lokað hafi verið fyrir munn hennar með valdi. Það útiloki þó ekki að það hafi verið gert.
Lögreglumennirnir látnir sviðsetja handtökuna
Við rannsókn málsins voru lögreglumennirnir látnir sviðsetja handtökuna. Þeir sem annast kennslu lögreglumanna voru meðal viðstaddra og var mat þeirra að viðurkenndum handtökuaðferðum hafi verið beitt.
„Þetta voru að minnsta kosti ekki viðurkenndar hjúkrunaraðferðir. Miðað við að þessir lögreglumenn höfðu áður haft afskipti af henni og þeir taka fram að þeir meðhöndluðu hana sem sjúkling,“ segir Jón.
Breyttu vitnisburði sínum
Réttarmeinafræðingurinn var einnig viðstaddur sviðsetninguna og skilaði viðbótaráliti eftir hana. Niðurstaðan var afgerandi:
Staðhæfa megi að aðgerðir lögreglu hafi átt umtalsverðan þátt í dauða Heklu.
Þar segir að báðir lögreglumenn hafi breytt fyrri vitnisburði sínum mikið. Andstætt fyrri vitnisburðum hafi þeir við sviðsetninguna sýnt hvernig þeir settu hné í bak Heklu mörgum sinnum. Þessir vitnisburðir veiti skýringu á meirihluta áverkana að frátöldum tvíráka margúl, slæmu mari, á fótlegg Heklu og fleiri ódæmigerðum margúlum á ýmsum hlutum líkama hennar.
Réttarmeinafræðingurinn lokar áliti sínu með þeim orðum að til að meta hvort beitt afl hafi verið í samræmi við aðstæður og sé þannig réttlætanlegt samkvæmt leiðbeinandi reglum lögreglu mæli hann með ítarlegri greiningu aðgerðasérfræðings lögreglu.
„Það fer ekki fram einhverra hluta vegna. Hann segir að það sé meira sem þarf að skoða og hlutir séu alvarlegri en koma þarna fram,“ segir Jón.
Málið ekki talið líklegt til sakfellis
Málið var látið niður falla hjá Héraðssaksóknara með þeim orðum að lagaskilyrði til afskipta og handtöku hafi verið fyrir hendi þar sem Hekla hafi verið með æsingsóráðsheilkenni. Mat sérfræðinga á valdbeitingaraðgerðum sem sakborningar beittu við sviðsetninguna hafi verið að viðurkenndum aðferðum hafi verið beitt. Ekki sé talið að málið sé líklegt til sakfellis.
„Þeir mátu það þannig eftir að hafa fengið þá til að stilla þessu upp að þetta hefði verði eðlilegt sem okkur finnst ekki eftir að lesa krufningarskýrsluna og sjá alla áverkana, sem voru gríðarlega miklir, þá getur þetta ekki verið eðlilegt. Og það verður að taka þetta fyrir til að hlífa öðrum frá því að lenda ekki í svipuðum hlutum. Þetta eru hlutir sem mega ekki gerast aftur,“ segir Jón.
Lögreglan vill ekki tjá sig
Niðurstaðan var kærð til Ríkissaksóknara sem staðfesti hana í lok nóvember.
Hvorki lögreglan á höfuðborgarsvæðinu né Lögreglufélag Reykjavíkur vildu tjá sig um málið. Samkvæmt upplýsingum Kompás tók málið mjög á umrædda lögreglumenn.
„Það ætlaði enginn að deyða hana það er alveg ljóst. Við vitum það. Ég held að það hafi samt verið gert því miður,“ segir Jón.
„Það hlýtur að vera erfitt að vera í lögreglunni miðað við hvernig ástandið er í dag og ég ber fulla virðingu fyrir því en við verðum líka að geta treyst því að fólk sem velur sér þetta starf sé starfi sínu vaxið og geti höndlað þetta starf, við verðum að geta treyst því. Þetta er lögreglan,“ segir Guðrún.
Vona að hægt sé að draga lærdóm af andlátinu
Á sama tíma og foreldrar Heklu syrgja dóttur sína vonast þau til að hægt verði að draga lærdóm af andláti hennar. Þeir sem hafi afskipti af fólki í slæmu geðrofsástandi verði meðvitaðir um þær hættur sem geti skapast.
Lögreglumennirnir sem handtóku Heklu voru ekki ákærðir en síðustu þrjú ár hafa ellefu lögreglumenn verið ákærðir fyrir brot í starfi. Eftir viku fjallar Kompás um eitt málanna og við birtum sláandi myndband af aðgerðum lögreglu.