Körfubolti

Njarðvíkingar skipta aftur um erlendan leikmann og Eric Katenda snýr aftur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Katenda í leik með Njarðvíkurliðinu í fyrravetur.
Eric Katenda í leik með Njarðvíkurliðinu í fyrravetur. Vísir/Bára

Karlalið Njarðvíkur hefur verið duglegt að gera breytingar á liði sínu í Domino´s deild karla á þessu tímabili og nú hafa Njarðvíkingar breytt aftur um erlenda leikmenn hjá liðinu.

Njarðvíkingar segja frá því á heimasíðu sinni að Tevin Falzon sé á förum frá Njarðvík og að félagið sé að fá Eric Katenda til sín aftur.

Möltubúinn Tevin Falzon kom til Njarðvíkur um áramótin og náði aðeins að spila fjóra leiki með liðinu. Í þessum fjórum leikjum var hann bara með 5,0 stig og 2,3 fráköst að meðaltali en aðeins 30 prósent skota hans rötuðu rétta leið.

Tevin Falzon spilaði aðeins í rétt rúmar níu mínútur í síðasta leik sínum í Njarðvíkurbúningnum.

Eric Katenda er 27 ára og skráður 206 sentímetrar á hæð. Hann er með franskt vegabréf.  Katenda spilaði með austurríska félaginu Unger Steel Gunners fyrir áramót og var þá með 6,5 stig og 3,2 fráköst að meðaltali á 15,0 mínútum í leik. 

Eric Katenda kom til Njarðvíkur á sama tíma í fyrra og spilaði þá bikarúrslitin og ellefu síðustu leiki liðsins í deild og úrslitakeppni.

Eric Katenda var með 15,2 stig og 9,8 fráköst að meðaltali í sex deildarleikjum en þær tölur duttu niður í 7,4 stig og 6,6 fráköst í leik í fimm leikjum liðsins í úrslitakeppninni.

Eric Katenda skoraði aðeins samtals 12 stig í síðustu þremur leikjum Njarðvíkur í úrslitakeppninni en þeim tapaði Njarðvík öllum á móti ÍR. Það má búast við því að Eric Katenda ætli að bæta fyrir þennan lélega endi í ár.

Katenda kemur til landsins í dag og er kominn með leikheimild hjá KKÍ. Hann verður því með liðinu á föstudag þegar Njarðvík mætir toppliði Stjörnunnar í Garðabæ.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×