Lífið

Sex ára ó­væntur senu­þjófur í beinni út­sendingu úr Glimmer­höllinni

Sylvía Hall skrifar
Sóley Mist tók nokkur spor fyrir áhorfendur á föstudag.
Sóley Mist tók nokkur spor fyrir áhorfendur á föstudag. Skjáskot

Hin sex ára gamla Sóley Mist Reeve var sannkallaður senuþjófur í Glimmerhöllinni á föstudag þegar hún fór á kostum í beinni útsendingu. Fréttamaður Stöðvar 2 var staddur í höllinni að segja frá lokaþætti Allir geta dansað þegar Sóley Mist ákvað að taka nokkur spor.

„Ég hafði ekki hugmynd um þetta fyrr en eftir á. Þetta var algjörlega óvænt,“ segir Karen Reeve, dómari þáttanna og móðir Sóleyjar, í samtali við fréttastofu. Hún hafði þó gaman af atvikinu þó það hafi alls ekki verið planað.

„Hún sat bara þarna hjá systur minni og mömmu og það var hálftími í að útsending byrjaði. Hún var bara eitthvað að skottast.“

Þrátt fyrir að æfa fimleika virðist Sóley einnig vera efnilegur dansari. Báðir foreldrar hennar eru fyrrum atvinnudansarar og hafa dansað saman um allan heim. Þá urðu þau heimsmeistarar í tíu dönsum í Tókýó árið 2003.

„Þetta er alveg pottþétt í blóðinu,“ segir Karen og hlær.

Hér að neðan má sjá Sóleyju Mist taka nokkur spor í beinni útsendingu. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×