Körfubolti

Einar Árni: Ánægður með góðan sigur

Ísak Hallmundarson skrifar
Einar Árni Jóhannsson ræðir við sína menn í leiknum í kvöld.
Einar Árni Jóhannsson ræðir við sína menn í leiknum í kvöld. vísir/bára

Njarðvíkingar unnu góðan útisigur á Haukum í Dominos-deild karla í kvöld, 87-76.

Með sigrinum styrkir Njarðvík stöðu sína í 5. sæti deildarinnar þegar tveir leikir eru eftir af deildarkeppninni.

,,Ég er mjög ánægður með góðan sigur. Mér fannst við varnarlega bara fínir í dag, við vorum í vandræðum í fráköstunum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þeir voru mikið að skora eftir sóknarfráköst. Við byrjuðum seinni hálfleikinn sterkt og náðum góðum tökum og þegar við vorum komnir 10 stigum yfir fannst mér við gera þetta nokkuð skynsamlega,‘‘ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, eftir leik.

Njarðvík sigraði Hauka einnig í fyrri leik liðanna í nóvember, þá 89-74.

,,Ég er ánægður að ná tveimur góðum sigrum á móti góðu Haukaliði, við förum mjög ánægðir út úr þessu,‘‘ sagði Einar en hann vildi ekki meina að liðið hans hefði tak á Haukaliðinu. ,,Það sem skekkir myndina er að Flenard dettur út en hann var búinn að vera góður í þessum leik, þannig að ég ætla ekki að segja til um eitthvað tak, bara góður sigur.‘‘

,,Ég er ánægður hvað þetta dreifðist vel og margir voru að hjálpa til í stigaskorinu, en fyrst og síðast er ég ánægður með góðan varnarleik í kvöld.‘‘

Núna nálgast úrslitakeppnin en Einar segir að það verði alltaf erfitt verkefni sama hvaða andstæðing Njarðvík fær í fyrstu umferð.

,,Þetta var næstum því úrslitaleikur um 5. sætið myndi ég segja, ég held að heimaleikjarétturinn sé mjög langsóttur. Það þarf þá eitthvað að ganga á annaðhvort á Króknum eða í Vesturbæ úr því sem komið er. Við ætlum okkur að klára þetta 5. sæti, hvað sem bíður okkar vitum við að verður mjög erfitt verkefni hvort sem það verður sexfaldir Íslandsmeistarar eða Krókurinn. Við tökum því sem að kemur.‘‘

Næsti leikur Njarðvíkur er heimaleikur við Fjölni á fimmtudaginn eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×