Sport

Dustin Johnson langefstur á Northern Trust mótinu

Ísak Hallmundarson skrifar
Johnson er að leika magnað golf þessa helgina.
Johnson er að leika magnað golf þessa helgina. getty/Ben Jared

Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson er að leika ótrúlegt golf á Northern Trust mótinu sem er í gangi núna um helgina en mótið er hluti af PGA-mótaröðinni í golfi.

Þrír hringir eru búnir af fjórum og eins og staðan er fyrir lokahringinn er Johnson efstur á 22 höggum undir pari, en það verður að teljast sjaldséð skor eftir þrjá hringi. 

Hann lék á sjö höggum undir pari í gær, ellefu undir á hringnum þar áður og fjórum undir fyrsta daginn og er með fimm högga forystu fyrir lokadaginn.

Í öðru sæti er Harris English á sautján höggum undir pari og sá þriðji er Scottie Scheffler á sextán undir.

Tiger Woods og Rory McIlroy virðast ekki vera að finna sig á þessu móti. Þeir komust báðir rétt svo í gegnum niðurskurðinn og í gær lék Tiger á tveimur höggum yfir pari og er samtals einu höggi undir pari í mótinu á meðan Rory lék á þremur yfir og er samtals á pari. 

Bein útsending frá lokahringnum hefst kl. 17:00 á Stöð 2 Golf í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×